Eitt ár frá opnun: Þjónustar 28% Suðurnesjamanna

Heilsugæslan Höfða Suðurnesjum opnaði fyrir einu ári á Aðaltorgi í …
Heilsugæslan Höfða Suðurnesjum opnaði fyrir einu ári á Aðaltorgi í Reykjanesbæ. mbl.is/Hermann

Hátt í níu þúsund manns hafa skráð sig í Heilsugæsluna Höfða Suðurnesjum sem fagnar í dag eins árs afmæli. Um er að ræða fyrstu einkareknu heilsugæsluna á landsbyggðinni.

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Fólk hefur tekið okkur vel og mikil jákvæðni hjá okkar skjólstæðingum,“ segir Þórarinn Ingólfsson, yfirlæknir heilsugæslunnar Höfða, í samtali við mbl.is.

Heilsugæslan, sem staðsett er á Aðaltorgi, þjónustar íbúa á Suðurnesjum. Íbúafjöldi Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkur og Voga til samans var í janúar rétt tæplega 31 þúsund.

Heilsugæslan þjónustar því rúmlega 28% íbúa svæðisins.

Fólk ánægt með að sækja þjónustu í heimabyggð

Þórarinn segir að þeir sem hafi skráð sig séu bæði einstaklingar sem áður höfðu verið hjá HSS en einnig fólk sem var skráð á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu og þurfti því að gera sér ferð á höfuðborgarsvæðið til þess að sækja heilbrigðisþjónustu.

Er fólk ánægt með það að geta sótt þjónustuna í heimabyggð í stað þess að þurfa að gera sér ferð í bæinn?

„Já, það er algjörlega almenn ánægja með það,“ segir hann og bætir því við að það sé einnig umhverfisvænna að fólk þurfi ekki að eyða óþarfa bílferðum á höfuðborgarsvæðið.

Kjörstærð 10-15 þúsund

Aðspurður segir hann að heilsugæslan vilji ekki vera með mikið meira en 11-12 þúsund skjólstæðinga og er það til þess að hafa þjónustuna persónulegri og betri.

„Eftir því sem heilsugæsla stækkar þá verður hún ópersónulegri og minni líkur á því að þú hittir á sama fólk í hvert sinn. Það segir sig sjálft. Ég held að kjörstærð á heilsugæslu sé svona tíu til fimmtán þúsund,“ segir Þórarinn.

Hann segir að það sé enn á kreiki misskilningur um það að fólk þurfi að greiða meira hjá þeim þar sem um er að ræða einkarekna heilsugæslu, sem er ekki rétt. Um er að ræða sjúkratryggða heilsugæslu sem allir hafa jafnan aðgang að og greiða sama gjald.

Sjúkraþjálfun við hliðina á heilsugæslunni

Nú starfa á heilsugæslunni sex læknar, sex hjúkrunarfræðingar og sex ritarar/heilbrigðisgagnafræðingar. Þá var Sigra sjúkraþjálfun að opna við hliðina á heilsugæslunni.

„Það var þannig að okkur fannst biðtími eftir sjúkraþjálfun vera mjög langur, það eru bara tvær stofur hérna. Þannig þegar við komum þá finnum við strax fyrir því að það var erfitt að koma fólki í sjúkraþjálfun.

Það var mikið af Suðurnesjamönnum sem voru að sækja þá þjónustu í Reykjavík þannig við höfðum samband við sjúkraþjálfara sem heita Sigra sjúkraþjálfun og báðum þá um að koma,“ segir hann og bætir því við að þar starfi nú fjórir sjúkraþjálfarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert