„Þetta eru alls ekki góðar fréttir. Ég mun heyra í forsvarsmönnum þessarar lyfjakeðju,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær er óvissa um framtíð apóteksins á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi. Kjartan Örn Þórðarson, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu, sem rekur verslanir Apótekarans, upplýsti að ákvörðun um framtíð þess yrði tekin og kynnt á næstu dögum.
Apótekið hefur verið lokað frá því í vor er boðaðar voru endurbætur á húsnæðinu. Í tilkynningu til viðskiptavina kom fram að til stæði að apótekið yrði opnað á ný í haust en framkvæmdir hafa ekki enn hafist.
Þór segir að mönnum hafi tekist að reka apótek í umræddu húsnæði í rúm 40 ár. Furðulegt megi teljast ef það sé ekki lengur hægt í fimm þúsund manna sveitarfélagi en auk Seltirninga sæki fjölmargir Vesturbæingar þjónustu á Eiðistorg.
„Þetta er þjónusta sem við viljum hafa innan seilingar. Það eru sjálfsögðu réttindi að geta sótt þessa þjónustu sem aðra um skamman veg en ekki langan,“ segir bæjarstjórinn.