Halla fer á fund konungs

Halla Tómasdóttir tók við sem forseti í ágúst. Friðrik X. …
Halla Tómasdóttir tók við sem forseti í ágúst. Friðrik X. tók við embætti í janúar. Samsett mynd

Halla Tómasdóttir hefur þegið boð Danakonungs um að mæta í opinbera heimsókn til Danmerkur í október. Þetta er fyrsta opinbera heimsókn Höllu og fyrsta opinbera heimsókn sem Friðrik X. konungur fær. Viðskiptasendinefnd verður með í för.

Eftir að hafa borist boð frá Friðriki Danakonungi og Mary Danadrottningu munu Halla og Björn Skúlason forsetaherra fara í opinbera heimsókn til Danmerkur 8.-9. október.

Sem fyrr segir er þetta fyrsta opinbera heimsóknin sem dönsku konungshjónin fá frá því að Friðrik settist á konungsstól þann 14. janúar. Þá er þetta einnig fyrsta opinbera heimsókn Höllu síðan hún tók við sem forseti þann 1. ágúst.

„Heimsóknin er til marks um hina sögulegu tengingu og hið nána samband milli Danmerkur og Íslands,“ segir í yfirlýsingu frá konungsfjölskyldunni.

Viðskiptasendinefnd með í för

Í heimsókninni munu forsetahjónin vera í fylgd viðskiptasendinefndar til að leggja áherslu á að efla samstarf milli landanna tveggja og leggja áherslu á sjálfbærni, að því er fram kemur á vef konungsfjölskyldunnar. Auk þess verði áhersla lögð á tæknilausnir í tengslum við stafræn og græn umskipti.

Konungshjónin munu taka á móti forsetanum og eiginmanni hennar og bjóða í hátíðlega veislu til að heiðra forsetahjónin.

Hefð er fyrir því að forseti Íslands fari til Danmerkur í sína fyrstu opinberu heimsókn.

Það hafa allir íslenskir forsetar gert nema sá fyrsti, Sveinn Björnsson, en hann er sá eini sem fór aldrei í opinbera heimsókn til Danmerkur á forsetatíð sinni. Hann átti í stirðu sambandi við Kristján X., þáverandi Danakonung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert