„Þarna birtist okkur möguleiki sem var ekki á borðinu áður.“
Þetta sagði Kristín Eysteinsdóttir, rektor við LHÍ, á fundi þar sem áform um að sameina allt skólastarf Listaháskóla Íslands við Skólavörðuholt voru tilkynnt í dag.
Kvaðst Kristín staðráðin í að ljúka verkefninu í sinni starfstíð, en húsnæðismál skólans hafa verið til umræðu í áratugi.
Rakti rektor langa sögu áforma um sameinaða skólastarfsemi á fundi með nemendum, starfsfólki og fjölmiðlum í dag og tilkynnti að framtíðarstarfsemi skólans yrði í húsnæði Tækniskólans, ekki í Tollhúsinu eins og áður stóð til.
Starfsemi Tækniskólans mun flytja í nýtt húsnæði í Hafnarfirði á næstu árum, en það lá ekki fyrir þegar ákvörðun um að sameina LHÍ í Tollhúsinu var tekin á sínum tíma.
„Við erum í raun að fá nýjan Listaháskóla helmingi hraðar,“ sagði Kristín í samtali við blaðamann mbl.is að fundi loknum, en áætlað er að starfsemi LHÍ við Skólavörðuholt geti hafist eftir 4-5 ár en ekki 8-10 ár líkt og var áætlað í tilfelli Tollhússins.
„Þetta mun auðvitað breyta því líka að við getum sett fjármagnið inn í kjarnastarfsemina í staðinn fyrir að greiða himinháa húsaleigu. Við viljum líka vera ábyrg hvað umhverfissjónarmið varðar.“
Húsnæði Tækniskólans er að sögn Kristínar frábær kostur undir starfsemi LHÍ þar sem ekki þurfi að ráðast í stórtækar breytingar á húsnæðinu, enda sé það byggt undir bæði bóklegt og verklegt skólastarf og sé í þokkabót í góðu ásigkomulagi.
„En við þurfum auðvitað að fara í viðbyggingu. Við þurfum að byggja sviðslistasal, bíósal og tónleikasal,“ segir Kristín.
Verkefnahópur sem fari nú yfir áætlanirnar stefni á að ljúka þeirri vinnu fyrir 29. nóvember.
Hún segir þá hönnunarvinnu sem hafi verið unna fyrir Tollhúsið þó ekki til einskis heldur verði þær hugmyndir sem unnu hönnunarsamkeppni á sínum tíma endurnýttar í viðbyggingaframkvæmdum á Tækniskólanum.
„Þetta er algjör himnasending fyrir okkur og við vildum auðvitað vera í miðborginni, í hjarta Reykjavíkur,“ segir Kristín og segir staðsetninguna nálægt helstu menningarstofnunum og listasöfnum borgarinnar.
Fleiri stækkunarmöguleikar séu sömuleiðis í húsnæðinu við Skólavörðuholt sem sé afar jákvætt með tilliti til stækkunar skólastarfs í framtíðinni. Ljóst sé að aðsókn í námið sé mikil en umsóknir í LHÍ jukust um 100% eftir að skólagjöld voru felld niður.
„Umsóknir jukust um 100% en við gátum bara tekið 16,5% aukalega inn og við auðvitað viljum geta stækkað skólann til framtíðar og þarna eru ákveðnir möguleikar til þess.