Ruglingur á Alþingi: „Það er engin kúla, allt búið“

„Það er engin kúla, allt búið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í gær þegar kom að henni að draga um númer á sæti fyrir komandi vetur á Alþingi.

Við nánara grams og eftirgrennslan reyndist þó kúla með númeri eftir í kassanum, og önnur til þar sem Þorgerður Katrín var næstsíðust til að draga. 

Það er fastur liður þegar Alþingi kemur saman að hausti að þingmenn dragi um sæti í salnum og er það því algjörlega handahófskennt hverjir sitja hlið við hlið.

Þorgerður hugðist ganga á brott með kúluna.
Þorgerður hugðist ganga á brott með kúluna. Skjáskot/Alþingi

Gekk sjálf með kúluna til sætis

Sætalottóið átti eftir að vefjast enn frekar fyrir Þorgerði, en hvernig eru annars leikreglurnar?

Útdrátturinn fer þannig fram að þingmenn draga kúlu með númeri uppúr kassa, afhenda þingforseta kúluna og hann les þá upp sætisnúmer. 

Þetta fyrirkomulag vafðist eitthvað fyrir Þorgerði Katrínu að þessu sinni því í stað þess að afhenda kúluna þá tók hún hana með sér, las sjálf upp númerið eins og alvöru bingóstjóri og gekk til sætis.

„Háttvirtur þingmaður upplýsir okkur kannski“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, náði hins vegar að stoppa hana af og bað hana að afhenda kúluna. 

„Háttvirtur þingmaður upplýsir okkur kannski um það hvar hún ætlar að sitja,“ sagðir Birgir kíminn. 

Vakti þessi uppákoma töluverða kátínu og gekk Þorgerður Katrín hlæjandi með kúluna til baka til þingforseta sem las hátt og skýrt upp sætisnúmerið 41 þar sem þingmaðurinn kemur til með að sitja í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert