„Staðan með Tollhúsið var orðin þannig að okkur leist ekki á blikuna og við verðum auðvitað alltaf að fara vel með almannafé.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, eftir að hún tilkynnti áform um sameiningu starfsemi Listaháskóla Íslands (LHÍ) í húsnæði Tækniskólans við Skólavörðuholt í dag.
Ráðherrann segir ákvörðunina afar ánægjulega í ljósi þess að til hafi staðið að koma skólanum undir sama þak í áratugi.
Áslaug tilkynnti um áformin með rektor LHÍ, Kristínu Eysteinsdóttur, á fundi með starfsmönnum, nemendum og fjölmiðlum í dag.
Upphaflega stóð til að færa starfsemina, sem nú er á víð og dreif um borgina, undir eitt þak í Tollhúsinu við Tryggvagötu, en varð þó fljótt ljóst að framkvæmdin yrði miklum flækjum háð.
Til að mynda yrði fyrst hægt að flytja skólastarf í húsið eftir 8-10 ár þar sem leggja þyrfti í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsnæðinu.
Þá er sömuleiðis ljóst að stækkunarmöguleikar væru engir að þeim framkvæmdum loknum.
Sagan er aftur á móti allt önnur í húsnæði Tækniskólans sem myndi vera tilbúið undir starfsemi skólans árið 2029 en þá flytur starfsemi Tækniskólans í nýtt húsnæði í Hafnarfirði. Sameiningin yrði því 4-5 árum fyrr en í Tollhúsinu.
„Við náum skólanum undir eitt þak, sem stefnt hefur verið að í áratugi, á sama tíma og flutt er inn í húsnæði sem hentar skólastarfi betur,“ segir Áslaug.
„Rask er minna og kostnaðurinn aðeins brotabrot af því sem í stefndi í Tollhúsinu. Það má gróflega áætla að sparnaður af þessari áætlun geti numið allt að 10 milljörðum króna.“
Verkefnahópur fer nú yfir áætlanirnar að sögn Áslaugar til að ganga úr skugga um að þær líti jafn vel út og frumathugun á húsnæði Tækniskólans gefur til kynna. Búist er við niðurstöðum hópsins fyrir lok nóvember.
Segir Áslaug margt húsnæði og margar lóðir hafa verið til skoðunar til uppbyggingar Listaháskólans eftir að í ljós kom að áform um skólastarf í Tollhúsinu væri minna fýsilegt en áður var talið.
Eftir að nýtt fjármögnunarlíkan háskólanna hafi tekið við þurfi skólarnir nú að gera ráð fyrir leigukostnaði af húsnæði. Líkaninu fylgi gagnsæi og hvati í tengslum við úthlutun á fjármagni ríkisins til háskólans.
„Vegna þessa nýja líkans þá sjáum við líka að skólarnir taka ábyrgari afstöðu til húsnæðismála eins og er að gerast hér í dag.“