Það er með öllu óviðunandi að börn þurfi að bíða jafn lengi eftir þjónustu og raun ber vitni.
Þetta er mat umboðsmanns barna, sem segir að löng bið eftir þjónustu við börn hafi verið viðvarandi vandamál til margra ára.
Til að varpa ljósi á stöðuna hefur umboðsmaður staðið fyrir reglulegri upplýsingaöflun um þann fjölda barna sem bíður eftir þjónustu hjá tilteknum aðilum.
Að því er umboðsmaður greinir frá er staðan meðal annars þessi:
Umboðsmaður barna tekur þessar upplýsingar saman á um sex mánaða fresti. Eftir síðustu samantekt í febrúar sendi umboðsmaður þremur ráðherrum bréf, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig ráðherrarnir hyggist bregðast við ástandinu.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra svaraði bréfinu 9. júlí. Ekkert svar hefur borist frá Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.
Í bréfi umboðsmanns til Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, þann 11. mars, segir:
„Það er ljóst að ef lög um samþætta þjónustu eiga að geta náð markmiðum er snúa að snemmtækum stuðningi þarf að koma í veg fyrir að langir biðlistar myndist eftir þjónustu, en það er nú þegar ein helsta fyrirstaða þess að börn fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda þegar þörf eftir stuðningi skapast.
Í ljósi framangreinds óskar umboðsmaður barna eftir afstöðu mennta- og barnamálaráðherra til þess hvort tilgreindur biðtími barna samræmist þeim almennu viðmiðum sem embætti landlæknis hefur sett um bið eftir heilbrigðisþjónustu en samkvæmt þeim á skoðun hjá sérfræðingi að fara fram innan 30 daga frá því að beiðni er lögð fram og meðferð að fara fram innan 90 daga frá greiningu.
Einnig óskar umboðsmaður eftir afstöðu ráðherra til þess hvort það samræmist lögum nr. 86/2021 að börn þurfi að bíða í marga mánuði eftir þjónustu. Að lokum óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um með hvaða hætti ráðherra hafi í hyggju að bregðast við þessari stöðu.“
Í dag eru liðnir sex mánuðir og ráðherra hefur ekki enn svarað bréfinu.
Þetta vekur athygli ekki síst í ljósi þess að umboðsmaður sendi ráðherranum annað bréf þann 23. júlí, en það varðaði óljósar áætlanir hans um nýtt námsmat í grunnskólum landsins og innleiðingu þess.
Því bréfi svaraði ráðherrann ekki fyrr en á síðasta degi fjögurra vikna svarfrests.
Töldu svör ráðherrans um eina blaðsíðu og báru þess nokkur merki að hafa verið unnin í flýti, einkum þegar litið var til frestsins sem gefinn var.
Slógu þau enda ekki á áhyggjur umboðsmanns, eins og rakið var í svarbréfi nokkrum dögum síðar.