Ætlar sér að verða meðal 100 bestu

Vignir Vatnar Stefánsson verður á fyrsta borði íslenska landsliðsins.
Vignir Vatnar Stefánsson verður á fyrsta borði íslenska landsliðsins. Ljósmynd/Aðsend

Hinn 21 árs gamli stórmeistari, Vignir Vatnar Stefánsson, stefnir á að verða meðal 100 bestu skákmanna heims. Stór draumur Vignis verður að veruleika í vikunni þegar hann mun tefla á fyrsta borði íslenska landsliðsins í Ólympíumótinu í skák sem hófst í gær.

Vignir fer með gott veganesti inn í mótið en á síðustu vikum hefur hann unnið tvö alþjóðleg skákmót.

Stefndi alltaf að sigri

„Ég ætlaði mér alltaf að vinna bæði mótin enda er ég voða mikill keppnismaður.

Ég var númer þrjú í styrkleikaröð á fyrra mótinu og númer eitt á seinna þannig ég átti alltaf góða möguleika en engu að síður er hrikalega erfitt að vinna svona sterk opin mót og að vinna tvisvar í röð sýnir mér að öll vinnan sem ég er búin að leggja inn er að skila sér,“ segir Vignir í samtali við mbl.is.

Sigur í þessum tveimur mótum færði Vigni samtals 23 Elo-skákstig en hann er nú langhæstur íslenskra skákmanna með 2.554 Elo-stig.

Draumur síðan hann var pjakkur

Eins og fyrr segir hófst Ólympíumótið í gær en Vignir fékk að hvíla sig fyrsta daginn. Hann er þó vel upplagður fyrir mótinu.

„Fyrsta umferð Ólympíumótsins hefst í dag [gær] en ég fæ að hvíla í fyrstu umferð, sem betur fer. Ég er nýkominn af þessum mótum þannig að ég fæ hvíld í dag [gær] en svo verð ég á fyrsta borði meira og minna allan tímann,“ segir Vignir og bætir við:

„Ég get ekki beðið. Mig hefur dreymt um að vera á fyrsta borði í landsliðinu síðan ég var bara pjakkur, þannig þetta er stór draumur að rætast.“

Hægara sagt en gert

Spurður hvort að hann fari með einhver ákveðinn markmið inn í mótið segir Vignir að fyrst og fremst ætli hann að leggja sig allan fram.

„Ég geri það alltaf þegar ég tefli sem einstaklingur og hvað þá þegar ég er í liðakeppni á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd, þá mun ég leggja mig enn meira fram,“ segir Vignir.

Hann bætir þó við að annað örmarkmið hans sé að tapa engri skák á mótinu heldur vinna eða gera jafntefli í þeim öllum.

„En við verðum að sjá hvort það takist, það er hægara sagt en gert.“

Reyndi að vera of kúl fyrir skák

Vignir byrjaði að tefla aðeins fimm ára gamall en að hans sögn hefur hann gert lítið annað síðan.

„Þegar ég orðinn tíu ára er þetta í rauninni bara það sem ég vil gera og ég stefndi alltaf að því að verða bestur á Íslandi, keppa á fyrsta borði og verða góð fyrirmynd fyrir Ísland í skák,“ segir Vignir en bætir við:

„Nema þegar ég var unglingur, þá reyndi ég að vera aðeins of kúl fyrir skák en ég komst út úr því.“

Vignir Vatnar byrjaði ungur að tefla.
Vignir Vatnar byrjaði ungur að tefla. Ljósmynd/Skáksamband Íslands

Einhvern veginn allir að tefla

Vignir segir að þegar hann hafi verið fjórtán eða fimmtán ára hafi ekki þótt flott að tefla en að það hafi breyst mikið síðan. Hann þakkar það sjónvarpsþáttum á borð við Queens Gambit og vinsælda tafls á samfélagsmiðlum.

„Það er ótrúlega gaman að sjá og áhuginn fyrir skák í íslensku samfélagi er gífurlega mikill. Það eru einhvern veginn allir að tefla á Chess.com.

Allir eru með appið í símanum sínum og tefla og allt í einu voru vinir mínir sem ég hélt að myndu aldrei tefla mættir á Chess.com. Þá hugsaði maður bara „hvað er að gerast“ ,“ segir Vignir.

Ætlar sér langt 

Spurður hvert hann stefni eftir Ólympíumótið segir Vignir að markmiðið sé að ná 2600 Elo-stigum sem myndi þýða að hann væri meðal um 150 bestu skákmanna heimsins.

„Svo ætla ég mér í topp 100 í heiminum,“ segir Vignir.

Til þess þyrfti hann að ná um 2650 Elo-stigum og þar með toppa stigahæsta íslending allra tíma, Jóhann Hjartarson.

„Ég ætla að eyða næstu árum í að verða eins góður skákmaður og ég get og ætla að verða besti skákmaður Íslands,“ segir Vignir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert