Lögreglunni er enn að berast tilkynningar um manninn sem virðist vera að kenna börnum að berjast með sverðum og kylfum á svæði á leikvellinum við Gerðusafnið í Kópavogi.
Í síðustu viku birtist myndband á íbúðasíðunni Kársnesið okkar þar sem maður er að sýna börnum hvernig eigi að bera sig með kylfur og sverð.
Lögreglan hafði upp á manninum, tók hann til yfirheyrslu og ræddi við hann. Þar var honum gert ljóst að láta af þessari hegðan og tekið var af af honum sverð og kylfur.
„Við vonumst til að hann láti af þessu því þetta er ekki boðlegt,“ sagði Heimir Ríkarðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is í síðustu viku.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að svo virðist vera að maðurinn hafi ekki látist til segja því eftir að lögreglan ræddi við hann hafa borist nokkrar tilkynningar um að maðurinn haldi áfram uppteknum hætti og nú síðast í morgun.
„Hann hefur verið að birtast á þessu svæði af og til undanfarna daga. Fólki stendur ekki á sama og hefur haft samband við okkur. Hann er svo ekkert að ógna neinum en fólk hringir í okkar þegar það sér hann,“ segir Gunnar.