„Ég er alveg gáttaður á þessu. Þetta er svo mikið virðingarleysi,“ segir Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur í Seltjarnarneskirkju, um myndskeið sem birtist í gærkvöldi.
Myndskeiðið var birt á facebooksíðunni Íbúar á Seltjarnarnesi og sést þar hópur fólks á mótorhjólum bruna upp og niður Plútóbrekkuna svokölluðu fyrir neðan Seltjarnarneskirkju. Einn þeirra spólar efst í brekkunni með tilheyrandi hávaða.
„Mér finnst þetta voða dapurlegt,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.
Plútóbrekkan er á landi Seltjarnarnesbæjar og sjást smávægilegar skemmdir í grasinu efst í brekkunni eftir mótorhjólin, að sögn Bjarna Þórs, sem skoðaði kringumstæður fyrr í dag.
Einn íbúi á facebooksíðunni benti á að athæfið væri brot á 31. grein umferðarlaga þar sem segir: „Í þéttbýli má ekki í heimildarleysi aka, stöðva eða leggja vélknúnu ökutæki utan vega á svæði sem ekki er ætlað fyrir umferð vélknúinna ökutækja.“
Aðspurður kveðst Bjarni Þór ekki vita til þess að svona hafi verið gert áður. Brekkan sé vinsælt útivistarsvæði þar sem krakkar leiki sér á snjóþotum á veturna.
Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið hafi verði bókað í kerfi lögreglunnar og að lögreglumenn hefðu farið á vettvang. Þeir sáu hvorki þá sem voru þarna á ferðinni né komu auga á neinar skemmdir.
Aðspurður segir Ásmundur Rúnar að viðurlög séu við athæfi sem þessu þegar um eignaspjöll eru að ræða en nefnir að lögreglan hafi hvorki myndband né myndir undir höndum af því sem gerðist.