Embætti héraðssaksóknara hefur ákært karlmann fyrir að hafa ekki greitt 30 milljónir í skatta af 66 milljóna króna tekjum sínum á árinu 2019.
Samkvæmt ákæru málsins er maðurinn sagður hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2020, vegna tekjuársins 2019. Lét hann undir höfuð leggjast að telja fram fjármuni sem skattskyldir eru sem tekjur frá tveimur einkahlutafélögum samtals að fjárhæð 65.991.533 krónur.
Með þessu komst maðurinn undan því að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð 30.011.668 krónur samkvæmt ákæru málsins og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Tekið er fram að hann hafi talið fram tekjur upp á 5,4 milljónir á umræddu tímabili.