„Maður er bara mjög uggandi“

Willum ræddi við blaðamann mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
Willum ræddi við blaðamann mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að það sé til skoðunar að koma upp neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb ofbeldis. Þá standi til að byrja skima fyrir ofbeldi í skólum landsins.

Hann kveðst uggandi yfir ofbeldishegðun ungmenna að undanförnu.

Bráðadag­ur­inn, sem er þverfag­leg ráðstefna fyr­ir fag­fólk í bráðaþjón­ustu fór fram fyrr á árinu en þar var ályktað að þörf sé á að koma á fót sér­stakri klín­ískri of­beld­is­mót­töku með svipaða hug­mynda­fræði að baki og neyðar­mót­taka kyn­ferðisof­beld­is.

Búið að fara í víðtæka vinnu

Spurður um aukið álag á bráðamóttökunni vegna ofbeldis og hvort verið sé að skoða hugmyndir eins til dæmis og ofbeldismóttöku segir Willum:

„Ég hlusta auðvitað á mitt fagfólk og við höfum verið með mikla vinnu í gangi í heilbrigðisráðuneytinu, bæði þegar kemur að kynferðisofbeldi og ofbeldi af ýmsum toga, meðal annars heimilisofbeldið. Það er nú þekkt að ofbeldi leiðir af sér ofbeldi, í flestum rannsóknum er það nú þannig,“ segir hann og bætir við:

„Við höfum farið í mjög víðtæka vinnu, gáfum út skýrslu sem tók saman tillögurnar og niðurstöðurnar af þeirri vinnu í framhaldi af aðgerðum í kynferðisofbeldi og móttöku þar af lútandi á Landspítala. Ein af tillögunum þar er einmitt ofbeldismóttaka. Þannig ég er alveg sammála okkar fólki upp á bráðamóttökunni að því leytinu til.“

Vilja skima fyrir ofbeldi í skólum

Hann segir að heilbrigðisráðuneytið vilji ásamt heilbrigðisstarfsmönnum byrja að skima fyrir ofbeldi í skólum landsins.

„Við viljum bregðast við á margvíslegan hátt í samvinnu við lögregluna, skólakerfið, mennta- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra,“ segir hann.

„Við syrgjum öll“

Spurður út ofbeldishegðun ungmenna og stungurárásir að undanförnu segir hann að samfélagið þurfi að draga lærdóm af þeim ofbeldisverkum sem sést hafa að undanförnu.

„Maður er bara mjög uggandi og þetta er mjög ógnvænleg þróun. Allt samfélagið þarf að taka höndum saman til að stemma stigu við þessari þróun. Mér finnst viðbrögðin núna hafa verið þannig og auðvitað mikill harmleikur sem átti sér stað á Menningarnótt og við syrgjum öll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert