Eldur logar í rútu í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi. Allt tiltækt lið slökkviliðs Ísafjarðar hefur verið kallað út.
Haft er eftir vitnum af atvikinu að eldurinn hafi fyrst komið upp aftast í rútunni, þar sem vélarrýmið er, og að farþegar hafi yfirgefið rútuna í rólegheitum. Rútan hafi svo fljótt orðið alelda.
Ekki er talið að neinn hafi sakað.
Um borð eru farþegar úr skemmtiferðaskipi sem liggur við Ísafjarðarhöfn. Þeir voru að koma úr skoðunarferð niður á Flateyri, Þingeyri og Dynjanda.
Myndir sýna að skammt á eftir voru fleiri rútur, og ein þeirra tók upp farþegana sem voru í brunnu rútunni.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur staðfest að allir farþegar hafi komist út óslasaðir og voru fluttir af vettvangi með annarri hópbifreið. Þetta kemur fram í Facebook-færslu lögreglunnar.
Segir þar einnig að veginum um Tungudal í Skutulsfirði, þar sem eldurinn kom upp, hafi verið lokað á meðan að unnið er að slökkvistarfi og vettvangsrannsókn.
„Ég á von á því að slökkvistarfið sé langt komið. Ég hef nú ekki séð það. Það voru reykjarbólstrar sem báru yfir himininn hérna rétt áðan en þetta var aðallega komið í það að vera slökkvistarf,“ segir Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum við mbl.is.
Segir hann að rannsóknardeild lögreglu muni svo skoða orsakir eldsins og hvað hafi gerst en nefnir lögrelustjórinn að svo virðist sem að eldurinn hafi komið upp í akstri.
Segir hann að farið verði í rannsókn á eldsvoðanum þegar slökkvilið Ísafjarðar hefur lokið starfi sínu og lögregla fái þá vettvanginn afhentan.
„Þegar þeir eru búnir þá fara mínir menn í að skoða hvað gerðist. Kannski liggur það alveg fyrir, ég bara veit það ekki.“
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá lögreglu.