Það styttist í að Svandís Svavarsdóttir tilkynni hvort að hún bjóði sig fram til formanns Vinstri grænna (VG). Þrjár vikur eru þar til landsfundur flokksins hefst.
„Ég er ekki búin að gera upp hug minn, ég er undir feldinum góða, en það auðvitað styttist í landsfund,“ segir Svandís aðspurð í samtali við mbl.is.
Þannig það styttist í ákvörðun?
„Já, það gerir það.“
Landsfundur Vinstri grænna verður haldinn 4.-6. október og eins og staðan er núna þá hefur enginn tilkynnt um formannsframboð.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur verið starfandi formaður frá því að Katrín Jakobsdóttir hætti á þingi og bauð sig fram til forseta. Guðmundur og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hafa ekki útilokað framboð.
„Það sem skiptir mestu máli er að við höldum okkar plani sem snýst um það að skerpa okkar pólitísku línur og okkar pólitíska erindi,“ segir Svandís spurð að því hvað henni finnist skipta máli að gerist á landsfundinum, óháð því hvort að hún fari fram eða ekki.
Hún kveðst finna fyrir mikilli þátttöku hjá grasrótinni í málefnastarfi flokksins og það er hún ánægð með.
„Pólitík VG á gríðarlega mikilvægt erindi nú um stundir. Það eru auðvitað stöðugt verið að minna okkur á mikilvægi umhverfis,- loftslags- og náttúruverndarmála.
En svo er auðvitað stórkostlega alvarlegt bakslag í kynjajafnréttismálum sem verður einfaldlega að setja á dagskrá með skýrum hætti, þó að ríkisstjórnin sem nú er við völd hafi og mun skila góðu búi í þeim efnum þá er það vakt sem má aldrei sofna á,“ segir hún.
Hún nefnir að sígild mál flokksins eins og þau sem lúta að því „hvernig við skiptum gæðum samfélagsins á milli okkar“ eigi líka mikið erindi.
„Hversu mikilvægt það er að þeir sem meira hafa á milli handanna leggi einfaldlega meira af mörkum til samneyslunnar og að við spornum við misrétti, óréttlæti og ójöfnuði. Það er okkar erindi og við erum alveg skýr með það.“
Hún væntir þess að flokkurinn nái að stilla saman strengi á landsfundinum.