„Ég hef áhyggjur af því að við höfum verið að stíga skref að aukinni einkavæðingu hér á Íslandi án allrar pólitískrar umræðu og það er sett í þann búning að það sé ekki raunveruleg einkavæðing, þannig það er svolítið verið að plata fólk að því leytinu til,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
ASÍ, BSRB og ÖBÍ, stóðu í gær fyrir málþingi í Eddu sem bar yfirskriftina Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu: Hætturnar við arðvæðingu og einkavæðingu í heilbrigðisrekstri og leiðir að bættu rekstrarumhverfi í þágu samfélagsins.
Á þinginu voru tveir sérfræðingar á heilbrigðissviðinu frá Svíþjóð sem fóru yfir þróunina í Svíþjóð með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Kom þar meðal annars fram að kostnaður við einkarekið kerfi væri meiri þegar litið væri á heildarmyndina, traust á kerfið færi dvínandi og að fólki væri mismunað eftir því hvar helst væri gróða að finna.
Málþingið var haldið í tilefni útgáfu bókarinnar Jafnrétti í heilbrigðisþjónustu, sem er þýðing á riti Göran Dahlgren og Lisu Pelling um málaflokkinn, og hvernig reynslan af arðvæðing í heilbrigðiskerfinu hefur verið í Svíþjóð undanfarna áratugi.
Um fimmtíu mans sóttu þingið en meðal gesta voru heilbrigðisráðherra og landlæknir.
Sonja var fundarstjóri en auk hennar tóku til máls höfundar ritsins Göran Dahlgren og Lisa Pelling og Rúnars Vilhjálmssonar prófessors á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
Dahlgren er sérfræðingur og ráðgjafi í lýðheilsumálum meðal annars í Svíþjóð og Víetnam auk þess sem hann er handhafi lýðheilsverðlauna Norðurlandaráðs.
Pelling er sænskur stjórnmálafræðingur og stjórnandi Arena Idé, hugveitu um heilbrigðismál.
„Það má raunverulega segja að samtök launafólks og ÖBÍ hafi í rauninni frá upphafi verið að berjast fyrir jafnrétti til aðgengis að heilbrigðisþjónustu og til þess að vita hvernig megi tryggja það höfum við staðið fyrir allskonar rannsóknum, skoðanakönnunum, greiningum og svo framvegis um hvernig megi tryggja það,“ segir Sonja Ýr spurð af hverju ASÍ, BSRB og ÖBÍ leggi áherslu á að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu sé rædd.
„Ástæðan fyrir því að við erum að halda þetta málþing með þeim sem fyrirlesurum er að það eru mjög margir sem tala fyrir aukinni einkavæðingu heilbrigðisþjónustu og benda þá til Svíþjóðar sem einskonar fyrirmyndar, svo við vildum taka umræðunum um hver áhrifin hafa verið af aukinni einkavæðingu í Svíþjóð,“ segir Sonja. Á málþinginu kom fram að þegar betur er að gáð sé margt athugavert við þá einkavæðingu.
Spurð hvernig hún myndi svara þeim sem telja að einkavæðing sé svarið við því að bæta heilbrigðiskerfið og stytta biðlista segir Sonja að vandamálið sé í grunnin að kerfið sé ekki fullfjármagnað af ríkinu.
„Það leiðir auðvitað til þess að það verður aukin bið eftir þjónustu, starfsfólki líður verr og það verður í fólksflótti úr greinunum. Það er auðvitað það sem veldur því að fólk er ekki að fá þjónustuna sem það þarf á að halda,“ segir Sonja.
„Staðan eins og hún er í dag er auðvitað óásættanleg. Við getum ekki verið með lasið fólk sem er að bíða eftir aðgerðum vegna þess að það er ekki verið að fjármagna heilbrigðisþjónustuna nógu mikið en einkaframtakið er enginn töfralausn í þessu máli,“ bætir hún við.
Þá bendir Sonja á að rannsóknir hafi sýnt fram á að hér sé skýr vilji meðal almennings að hið opinbera veiti heilbrigðisþjónustuna í landinu.
Í fyrsta erindi dagsins, sem bar yfirskriftina Þegar sænska heilbrigðiskerfið varð að markaði - drifkraftar, áhrif og aðrir möguleikar, rakti Dahlgren þær afleiðingar sem einkavæðing síðustu áratugi hefur haft á heilbrigðiskerfið í Svíþjóð. Í erindinu ræddi hann um einkavæddar heilbrigðisstofnannir sem eru fjármagnaðar með skattfé.
Hann sagði að með slíkri einkavæðingu færðist valdið yfir heilbrigðisgeiranum frá fólkinu í landinu yfir til „hinnar ósýnilegu handar“, það er til markaðsaflanna.
Þá talaði hann um að einkavæðing í heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð hafi orðið til þess að fólk með minniháttar kvilla sé tekið fram yfir fólk með meiriháttar kvilla innan kerfisins því meiri gróði fylgi þeim.
Sömuleiðis mismuna einkareknar heilbrigðisstofnanir í Svíþjóð þeim sem eru minna menntaðir, þeim sem búa í dreifbýli og þeim sem eru tekjulágir að sögn Dahlgren.
Þá kom fram að þegar litið er á heildarmyndina er kostnaðurinn við að reka einkarekið heilbrigðiskerfi í raun meiri en við að reka opinbert heilbrigðiskerfi.
Það er meðal annars vegna þess að yfirmönnum hefur fjölgað mikið í kjölfar einkavæðingar í Svíþjóð og sömuleiðis málsóknum.
Loks talaði Dahlgren um að traust væri besti mælikvarðinn á heilbrigðiskerfi og að traust hjá langveikum og tekjulágum Svíum gagnvart heilbrigðiskerfinu hafi farið minnkandi síðan einkavæðing hófst.
Í erindi sínu Áætlanir stéttarfélaga og viðbrögð við markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu – sjónarmið frá Svíþjóð rakti Lisa Pelling sögu einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu í Svíþjóð.
Hún hóf erindi sitt á hinni sígildu setningu „með lögum skal land byggja“ og sagði í því samhengi að sömuleiðis skildi byggja heilbrigðiskerfi á lögum og lýðræði en ekki á markaðsöflum.
Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að hafna frekari einkavæðingu og afeinkavæða þá heilbrigðisþjónustu sem þegar hefur verið einkavædd.
Loks steig á stokk í fjarfundarformi Rúnar Vilhjálmsson þar sem hann setti niðurstöður rannsókna Dahlgren og Pellingí samhengi við Ísland.
Í erindi hans kom meðal annar fram að einkavæðing heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu sem hófst um miðjan síðasta áratug hafi í grunnatriðum ekki uppfyllt markmiðin sem lágu að baki henni,
Heimilislæknum hefur t.d. ekki fjölgað og þá eru höfuðborgarbúar líklegri til að hika við að sækja sér þjónustu heilsugæslunnar en áður.