Ljón fyrir utan tjöldin

Sigrún og Jóhannes fóru með börnin sín, Emblu Hlökk og …
Sigrún og Jóhannes fóru með börnin sín, Emblu Hlökk og Nökkva Styr, í ævintýraferð til Austur-Afriku.

Afríka er heimsálfa sem er engu lík, full af dulúð, ólýsanlegri náttúrufegurð, villtum dýrum og iðandi og litríku mannlífi. Sigrún Þorsteinsdóttir og eiginmaður hennar, Jóhannes Erlingsson, voru nýlega á ferðalagi í Austur-Afríku, ásamt fjölskyldu og vinum, og hófst ferðin í Sansíbar í Tansaníu og endaði í Mombasa í Keníu.

Sigrún, sem er doktor í heilsueflingu, er starfandi heilsu- og barnasálfræðingur og þar að auki mikill matgæðingur, en margir fylgjast með matargerð hennar á cafesigrun.com. Eitt af hennar aðaláhugamálum eru ferðalög og er Afríka þar í sérstöku uppáhaldi, en hún hefur margoft lagt leið sína þangað, fyrst fyrir tuttugu árum. Blaðamaður fékk Sigrúnu til að segja sér ferðasöguna.

Í ferðinni var snorklað í Indlandshafi.
Í ferðinni var snorklað í Indlandshafi.

„Það má segja að Afríka klófesti hjarta manns og haldi því. Það er þó erfitt að útskýra tilfinninguna nema maður hafi heimsótt álfuna.“

Allir með tillögur

„Árið 2008 fórum við að skoða górillur í Virunga-fjöllum Rúanda og fórum einnig til Úganda sem var mikið ævintýri. Við vorum þar með nokkra ferðafélaga með okkur og þar sem okkur var vel til vina ákváðum við, tíu árum og samtals þremur börnum síðar, að fara samferða og þá í tveggja vikna ferð til Keníu sem heppnaðist svakalega vel. Við ákváðum að endurtaka leikinn nú í ár,“ segir hún, en ferðalangarnir í ár voru Margrét Dóra Ragnarsdóttir og Hjálmar Gíslason og sonur þeirra Ómar Hugi, þrettán ára, og börn Sigrúnar og Jóhannesar, Embla Hlökk og Nökkvi Styr, fimmtán og þrettán.

Sigrún lét gamlan draum rætast og fór á hestbak á …
Sigrún lét gamlan draum rætast og fór á hestbak á Sansíbar.

„Allir fengu að koma með sína tillögu að einhverju til að gera í ferðinni og Ómar Hugi, Hjálmar og Magga Dóra vildu köfun í Indlandshafi, enda með réttindi, Embla Hlökk og Nökkvi Styr vildu snorkl, sæþotur og stjörnubjartan himin sem er engu líkur þarna. Mig hafði lengi dreymt um að fara á hestbak á Sansíbar, alveg síðan ég sá Svarta folann í sjónvarpinu níu ára gömul. Allir vildu safarí, sem minnsta keyrslu, dýraskoðun og sundlaug og strönd þegar þess var kostur,“ segir Sigrún og segir ferðina hafa verið sniðna að þessum óskum.

Á hestbaki á ströndinni

„Við byrjuðum á því að fljúga til Dúbaí og gistum þar eina nótt sem er mjög þægilegt fyrir fólk eins og mig sem er með óþol fyrir næturflugi. Þarna höfðum við gist áður og líkað vel, sérstaklega börnunum. Það var þó 54 stiga hiti úti sem er eins og að vera fastur inni í blástursofni. Við flugum svo beint í 30 gráðu „kuldann“ á Sansíbar sem er eyja og sjálfsstjórnarríki utan við Tansaníu.

Við vorum þar í þrjár nætur og skoðuðum gamla bæinn sem er undir sterkum arabískum áhrifum, borðuðum frábæran mat, meðal annars sjávarfang á hinum fræga Foradhani-matarmarkaði, við sigldum út í Prison Island, snorkluðum í heitum sjónum og skoðuðum risaskjaldbökur. Hluti fór í köfun en hinn í gönguferð með fræðslu um kryddskóginn þar sem vanilla, kanill, múskat, pipar, sítrónugras, mangó, ananas og ýmislegt fleira vex.

Hápunktur fyrir mig og eiginmanninn var að komast á hestbak á ströndinni og þó að íslenski hesturinn sé auðvitað alltaf bestur, þá var þetta algjört ævintýri og ég brosti hringinn allan tímann. Ég mæli þó alls ekki með að vera með sólarvörn á höndunum þegar haldið er í gúmmíreiðtauma á harðastökki. Sem betur fer er ég vön reiðmanneskja, en hefði annars endað rassblaut í Indlandshafi!“

Sprakk á jeppanum

„Eftir frábæra daga á Sansíbar flugum við yfir til meginlandsins þar sem bílstjóri á safaríjeppa beið okkar og keyrðum við í um sjö klukkustundir niður í Tarangire-þjóðgarðinn þar sem finna má ljón, hýenur, gíraffa, buffala, gnýi, sebrahesta og fjölda annarra dýra sem við þekkjum frá Austur-Afríku.

Það er algjörlega óviðjafnanlegt að keyra um afrísku slétturnar og fylgjast með dýrunum og maður dregur ósjálfrátt alltaf andann dýpra. Tarangire Lodge sem við gistum á er með stórfenglegu útsýni yfir víðáttumiklar slétturnar og ekki nokkurt hús í augsýn, ekki rafmagnsstaurar, engin flugumferð, bara kyrrð hvert sem litið er. Maður heyrir í ljónum, fílum og hýenum á nóttunni,“ segir Sigrún.

Margir fílar urðu á vegi þeirra í safaríi. Vel mátti …
Margir fílar urðu á vegi þeirra í safaríi. Vel mátti heyra í þeim á nóttunni. Ljósmyndir/Sigrún

„Eina nóttina máttum við ekki fara úr safarítjöldunum okkar þar sem ljón voru beint fyrir utan. Við lentum í ævintýri á leið heim úr síðdegissafaríi þar sem sprakk á jeppanum sem leiðsögumaður okkar keyrði og nú voru góð ráð dýr, við nýbúin að keyra fram hjá hýenum og sólin að setjast. Þá kom aðvífandi jeppi af næsta gististað með fullan bíl af mjög hressu starfsfólki sem allt lagðist á eitt um að hjálpa þessum strönduðu ferðalöngum. Að sjálfsögðu brustu allir í söng og dans eins og algengt er á þessum slóðum. Það eru einhvern veginn allir glaðir og þarf lítið til að rassarnir fari að dilla.“

Fólk með bros á vör

Hjónin hafa sjálf oft lóðsað fólk um Austur-Afríku, enda hafa þau öðlast mikla reynslu á öllum þessum ferðalögum þangað.

Ljón mættu fyrir utan tjald þeirra eina nóttina.
Ljón mættu fyrir utan tjald þeirra eina nóttina.

„Algengasta spurningin sem við höfum fengið, fyrir utan hvort við séum ekkert hrædd við ljón, er: „Hvernig er maturinn?“ Það skal tekið fram að við höfum án undantekninga fengið frábæran mat á ferðum okkar og alls staðar er fólk með bros á vör. Sýni maður kurteisi fær maður ekkert nema kurteisi á móti. Þótt við séum nýkomin heim er Austur-Afríka aftur farin að toga í okkur. Það bara gerist, hún nær tökum á manni og við hlökkum til að fara aftur.“

Náttúrufegurðin er engri lík í Austur-Afríku.
Náttúrufegurðin er engri lík í Austur-Afríku.

Ítarlegt viðtal er við Sigrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert