Sárnaði orð formanns: Ekki við borgina að sakast

Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar segir borgina ekki hafa gert Reiðhjólabændum …
Formaður umhverfis- og skipulagsnefndar segir borgina ekki hafa gert Reiðhjólabændum að aflýsa viðburði sínum. mbl.is/Hari/Eggert Jóhannesson

„Reiðhjólabændur ákváðu einfaldlega að það yrði ekki af þessu í ár og þá er ekki mikið sem við getum gert.“

Þetta segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, um gagnrýni formanns félagsskaparins Reiðhjólabænda um að yfirvöld í borginni hafi ekki séð sér fært að standa að götulokunum í kringum hádegi á Bíllausa daginn.

Bíllausi dagurinn er á sunnudaginn í næstu viku og er hluti af samevrópsku Samgönguvikunni sem hefst á mánudaginn.

Reyndu að greiða leið Reiðhjólabænda

Raunar segir Dóra sér hafa sárnað orð formannsins þar sem borgin hafi greitt leið Reiðhjólabænda að viðburðinum eins mikið og unnt var, m.a. með því að aðstoða við kostnað. Félagið hafi aftur á móti hafist handa við skipulagningu viðburðarins fremur seint.

„Við vorum öll af vilja gerð og vorum í rauninni að greiða þeim leið í þessu verkefni,“ segir Dóra.

Hún bætir við að borgin hafi greint félaginu frá því að það tæki sinn tíma að fá afnotaleyfi og umsagnir, þ.á.m. frá lögreglunni. Sömuleiðis væri mikilvægt að gefa sér nægan tíma ef ske kynni að babb kæmi í bátinn eins og gjarnan gerist.

Segir Dóra borgaryfirvöld raunar hafa reynt að flýta fyrir ferlinu og ýta á eftir Reiðhjólabændum til þess að láta viðburðinn ganga upp. Bændurnir hafi fengið tilskilin leyfi frá borginni og Vegagerðinni en þó með fyrirvara um samþykki lögreglu.

Formaður Reiðhjólabænda sagði yfirvöld telja of mikið vesen að loka …
Formaður Reiðhjólabænda sagði yfirvöld telja of mikið vesen að loka götum fyrir reiðhjólafólk á Bíllausa daginn. Samsett mynd/aðsend/Árni Sæberg

Borgin hafi ekki slegið viðburðinn út af borðinu

„Lögreglan setti sig upp á móti þessu með neikvæðri umsögn en sagði að ef við vildum halda okkur við viðburðinn þrátt fyrir þeirra umsögn þá yrðum við að loka á 21 gatnamótum með svona harðri mannaðri lokun.“

Slíkar lokanir séu til þess að tryggja öryggi fólks sem best en séu vissulega talsvert umfangsmeiri og tímafrekari en búist var við í upphafi. Það megi því segja að Reiðhjólabændur hafi brunnið út á tíma enda erfitt að manna og framkvæma slíka lokun með svo stuttum fyrirvara.

Það sé aftur á móti ekki rétt að borgin hafi sagt að ekki væri hægt að halda viðburðinn enda hægt að skoða ýmsar útfærslur á honum. Til að mynda hefði verið hægt að skoða aðrar leiðir en Dóra bendir sömuleiðis á að borgin hafi ekki hafnað útfærslunni sem lögreglan stakk upp á.

„Við í rauninni slógum það ekki út af borðinu,“ segir Dóra

Ekki endilega um seinan

„Ég myndi enn þá gjarnan vilja að það væri möguleiki að gera þetta, að við myndum bara láta verða af því ef það væri vilji til þess. En svo er auðvitað spurningin það er bara vika í þetta þannig það er ansi stuttur tími.“

Aðspurð kveðst hún þó ekki gera sér fyllilega grein fyrir því hvort það sé um seinan fyrir Reiðhjólabændur að taka upp viðburðinn að nýju. Ef þeir séu enn spenntir fyrir því standi það alla vega ekki á henni.

Reiðhjólabændur vilja endurvekja samhjólaviðburð.
Reiðhjólabændur vilja endurvekja samhjólaviðburð. Ljósmynd/Aðsend

Hún sé alla vega vongóð um að það takist að halda viðburðinn á næstu árum en til þess þurfi að hefja undirbúning snemma til að skapa ekki of mikla tímaklemmu.

Varðandi gagnrýni formannsins um að ekki sé nóg af viðburðum í tengslum við Samgönguvikuna miðað við í öðrum Evrópulöndum segir Dóra vissulega alltaf mega fjölga viðburðum.

Henni teljist aftur á móti til að alla vega sex eða sjö viðburðir sem borgin eigi aðkomu að fari fram í Reykjavík, eða um helmingi fleiri en formaðurinn hélt fram.

„Við hjá Reykjavíkurborg erum mjög upptekin af því að auka aðgengi gangandi og hjólandi um alla borg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert