Sniðgengu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur

Um 150 manns gengu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur til að …
Um 150 manns gengu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur til að vekja athygli á sniðgöngu gegn Ísrael. Samsett mynd/Aðsend

Um 150 manns gengu svokallaða Sniðgöngu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í dag til að vekja athygli á sniðgöngu sem mótmælaaðgerð gegn Ísrael vegna stríðsins á Gasasvæðinu.

„Það var gríðarlega mikil orka og samhugur í göngunni og svo vorum við líka heppin með veður,“ segir Daníel Þór Bjarnason, einn skipuleggjenda göngunnar.

Gengið frá Hafnarfirði til Reykjavíkur.
Gengið frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Ljósmynd/Sigtryggur

„Við fengum mikið af góðri hvatningu frá vegfarendum sem urðu á leið okkar,“ segir Daníel og bætir við að mikið hafi verið um veif og flaut frá bifreiðum sem keyrðu framhjá göngunni.

„Sniðganga, Svipting, Refsiaðgerðir.“

Gangan var á vegum BDS-hreyfingarinnar en BDS stendur fyrir „Boycott, Divestment, Sanctions“ eða „Sniðganga, Svipting, Refsiaðgerðir.“

Ljósmynd/Sigtryggur

Lagt var af stað úr Hellisgerði klukkan 14 og voru sniðgöngugarparnir komnir á áfangastað í Katrínartúni klukkan 16:40, en gangan var um 11 km löng. Tók þar á móti þeim móttökunefnd á sviði þar sem ræðuhöld fóru fram. Styttri ganga var einnig haldin á Akureyri.

Að sögn Katrínar Bjargar Þórisdóttur, skipuleggjenda á Akureyri komu um 45 manns saman við Háskólann á Akureyri og gengu að Ráðhústorginu þar sem ræðumenn fluttu erindi en dagskráin endaði með Dabke-dansi og tónlist.

Frá Sniðgöngunni á Akureyri í dag.
Frá Sniðgöngunni á Akureyri í dag. Samsett mynd/Aðsend

Friðsamlegasta leiðin til að mótmæla

Segir Daníel markmið göngunnar fyrst og fremst hafa verið að vekja athygli á möguleikanum á að sniðganga vörur frá Ísrael í mótmælaskyni.

„Það hefur sögulega virkað og virkaði til dæmis vel gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku á sínum tíma.“ segir Daníel.

„Þetta er friðsamlegasta leiðin til þess að mótmæla. Með því að velja að hafna vörum sem koma frá eða hafa sterk tengsl við Ísrael eða eru með verksmiðjur eða starfsemi á herteknum svæðum.“

Gengið til Reykjavíkur.
Gengið til Reykjavíkur. Ljósmynd/Sigtryggur

Mótmæla með veskinu

Hann segir hópinn sem standi á bak við gönguna að miklu leyti hafa myndast í vetur í tengslum við mótmæli gegn framgöngu Ísraelsmanna á Gasasvæðinu og hefur vakið athygli á sniðgöngu sem leið til að mótmæla. Félagið Ísland-Palestína hafi einnig komið að skipulagningunni.

Ljósmynd/Sigtryggur

Sniðganga fylgi lista BDS-hreyfingarinnar sem telji nú sjö vörumerki sem beri að forðast kjósi maður að sniðganga fyrirtæki með bein tengsl við Ísrael: Rapyd, Teva, Morroccan Oil, Puma, Hälsans Kök, Hewlett-Packard (HP) og Soda Stream.

Ljósmynd/Sigtryggur

Hefur hópurinn komið upp vefsíðunni snidganga.is þar sem hægt er að kynna sér sniðgöngu og þau fyrirtæki sem um ræðir betur. Er þar einnig að finna lista yfir fyrirtæki og hvort þau selji enn tilteknar vörur á borð við hárvörur frá Morroccan Oil eða noti færsluhirðinn Rapyd.

„Þetta hefur raunveruleg og áþreifanleg áhrif og ef þig langar ekki til þess að mótmæla með því að standa og öskra þá er auðveld leið til þess að gera það með veskinu.“

Palestínsk börn fyrir framan ónýta byggingu í Beit Lahia á …
Palestínsk börn fyrir framan ónýta byggingu í Beit Lahia á norðurhluta Gasasvæðisins í dag eftir loftárás Ísraela. AFP/Omar Al-Qattaa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert