Aldrei leiður á ­bassanum

Jakob Smári heldur upp á sextugsafmælið sitt með tónleikum í …
Jakob Smári heldur upp á sextugsafmælið sitt með tónleikum í Bæjarbíói. Morgunblaðið/Ásdís

Bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon tekur á móti blaðamanni í húsnæði Rauða krossins þar sem hann er yfir verkefni sem stuðlar að því að koma föngum aftur út í lífið eftir afplánun. Við röltum saman yfir á kaffihús í grenndinni þar sem hægt er að ræða lífið og listina yfir kaffibolla. Á tímamótum, nú þegar hann fyllir sextíu ár, finnst Jakobi gott að staldra við og horfa yfir farinn veg, þakka fyrir það góða og gefa eitthvað til baka.

Sveitaböll og bóhemlíf

Bassinn hefur fylgt Jakobi allt frá unglingsárum, en fyrsta bassann keypti hann 1979.

„Ég ætlaði alltaf að verða tónlistarmaður og sagði mömmu þegar ég var sex ára að ég ætlaði að verða Paul McCartney þegar ég yrði stór. Það gerðist nú ekki en ég fór að spila á bassa eins og hann,“ segir Jakob og brosir.

„Ég prófaði gítar og trommur en svo komu Stranglers til landsins og þá féll ég fyrir bassanum. Ég var svo kominn í fyrstu hljómsveitina árið 1980 og hét hún Djamm 80 og var undanfari Tappa tíkarrass, en Björk var í þeim báðum,“ segir hann.

„Tappinn hætti 1983 og þá hélt ég að ferillinn væri bara búinn. En svo hitti ég Bubba og hann var þá að stofna Das Kapital og ég var ráðinn. Sú hljómsveit stoppaði þó stutt við,“ segir Jakob sem fór þá að spila í Grafík með Helga Björns.

Jakob og Helgi Björns sjást hér í góðri sveiflu, en …
Jakob og Helgi Björns sjást hér í góðri sveiflu, en þeir voru saman í SSSól. Ljósmynd/Mummi Lú

„Ég spilaði með Grafík í einhvern tíma og fór svo aftur að spila með Bubba í hljómsveitinni MX 21 þegar Bubbi var að fylgja eftir plötunni Frelsi til sölu,“ segir Jakob.

„Næst stofnuðum við Helgi Síðan skein sól og þá hófst það ævintýri sem stóð yfir mjög lengi. Við urðum svo ballhljómsveit og spiluðum þá allar helgar. Þetta var mín aðalvinna á þessum tíma þótt maður gripi í annað af og til. Þetta var bóhemlíf sem ég höndlaði ekki vel og var ég kominn í meðferð 28 ára. Foreldrum mínum leist ekkert á þennan frama og fannst ég vera á vegi til glötunar,“ segir Jakob, sem hefur nú lifað lífinu mjög lengi án áfengis.

Hef reynt að hætta

Hugmyndin að tónleikunum kviknaði fyrir ári.

„Mér finnst gaman að spila á tónleikum og ég fékk þá hugmynd að setja saman band sem myndi spila lög frá ferli mínum. Það voru margir til í að vera með. Mér fannst tilvalið að koma fram nú þegar ég er sextugur. Ágústa Eva og Stefán Jakobsson söngvari Dimmu munu syngja og Helgi Björns og Bubbi munu mæta líka, ásamt mörgum öðrum. Þetta verður þverskurður af ferlinum; lög SSSólar, Bubba, Das Kapital, Tappans og Grafíkur,“ segir hann en hljómsveitin heitir einfaldlega Jakob Smári Magnússon og hljómsveit. Miða á afmælistónleikana má finna á tix.is.

„Ég verð aldrei leiður á að spila á bassann; það er alltaf jafn gaman. Ég hef alveg reynt að hætta en það hefur aldrei gengið.“

Ítarlegt viðtal er við Jakob Smára í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka