Aðalfréttin á baksíðu Morgunblaðsins 5. september 1973 bar fyrirsögnina: Z numin úr ritmáli.
Nú hefur stafsetningin breyst en ekki breytzt.
Síðan segir að bókstafurinn z hafi verið afnuminn úr íslenskri stafsetningu en greinilegt er að ritstjórn blaðsins hefur ekki tekið þær reglur til sín og í fréttinni er setan notuð óspart:
„Menntamálaráðuneytið hefur fallizt á tillögur nefndar, sem endurskoða á reglur um stafsetningu og greinarmerkjasetningu þess efnis að „seta“ verði felld niður úr íslenzku ritmáli. Reglur um þetta eru auglýstar í dag og öðlast þegar gildi. „Setan“ hefur verið í gildi frá því í febrúarmánuði 1929,“ hefst fréttin.
Í auglýsingu frá menntamálaráðuneytinu um afnám z, sem birt er í blaðinu, segir m.a. að nýjar reglur skuli gilda um stafsetningarkennslu í skólum, um kennslubækur útgefnar eða styrktar af ríkisfé, svo og um embættisgögn sem út eru gefin.
Meginreglan sé að ekki skuli rita z fyrir upprunalegt tannhljóð (d, ð, t) + s, þar sem tannhljóðið væri fallið brott í eðlilegum framburði. Ýmsar afleiddar reglur fylgdu, svo sem að ef stafurinn t hefði verið framan við z þá félli hann brott og orð eins og stytzt, hitzt og flutzt skyldu skrifuð styst, hist og flust.
Í blaðinu er rætt við Magnús Torfa Ólafsson, sem þá var menntamálaráðherra, Halldór Halldórsson, formann nefndarinnar sem endurskoðaði stafsetninguna, og nokkra íslenskukennara um málið og sýndist sitt hverjum. Halldór segir m.a. að samkomulag hafi orðið í meginatriðum um brottfall setunnar. Hann bendir á að þessi breyting nái aðeins til kennslu í skólum, til kennslubóka útgefinna eða styrktra af ríkisfé, svo sem til embættisgagna sem út væru gefin.
Reglugerðin nái hins vegar ekki til embættisbréfa og bóka sem ríkið gefur út nema til kennslubóka. „Vildi ráðherra ekki láta þetta ganga lengra, t.d. vildi hann ekki þvinga rithöfund, sem Menningarsjóður gæfi út eftir, að skrifa setulaust, ef hann vildi skrifa setu. Því eru menn frjálsir að því að skrifa setu í langsamlegast flestum tilvikum.“ Halldór sagði að það myndi taka eina kynslóð áður en nýju reglurnar yrðu ríkjandi.
Baldur Jónsson lektor segir við blaðið að tilefnið til þess að stafsetningunni sé breytt sé að hans hyggju illa ættað. „Það hafa engar breytingar orðið á máli, sem kalla á breytingu á starfsetningu. Tilefnið er einfaldlega það, að fólk hefur gefizt upp. Það er þessi linka og vesaldómur, sem mér finnst afskaplega lítilfjörlegt tilefni til að breyta menningaratriði eins og stafsetningu.“
Morgunblaðið hélt áfram að fjalla um afnám setunnar daginn eftir og ræðir meðal annars við nokkra nemendur um brottfall bókstafsins. Flestir eru þeir frelsinu fegnir og telja óþarfa að nota z þegar annar stafur sé til fyrir sama hljóðið. Jóhanna Jónsdóttir, sem tók landspróf frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar um vorið, segist halda að hún hafi bætt við átta aukasetum á prófinu um vorið, en það átti aðeins að vera ein z í öllu prófinu. „Ég tók vel eftir því í vor að krakkarnir virtust hafa mestar áhyggjur af z fyrir stafsetningarprófið,“ segir hún.
En Friðrik Sigurbergsson, nemi í MH, segist vera mjög mikið á móti breytingunni. „Ég á satt að segja erfitt með að skilja það að z skyldi felld úr ritmálinu þar sem z-reglurnar eru auðveldastar af öllum stafsetningarreglum í íslenzku. Það er alveg hlálegt að fólk skuli vera að gráta út af z.“ Hann bætir við að ef skólinn krefjist þess að nemendur skrifi s í staðinn fyrir z verði hann auðvitað að tileinka sér þær reglur, „en utan skólans ætla ég að skrifa z fram í rauðan dauðann.“
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu sem birtist á fimmtudaginn.