Dyraverðir á skemmtistað í miðborginni voru handteknir í nótt grunaðir um alvarlega líkamsárás.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið en mörg vitni urðu að árásinni, að því er segir í dagbók lögreglu í morgun.
Þar segir einnig af öskrandi manni í mjög annarlegu ástandi í miðbænum. Lögreglu var tilkynnt um að maðurinn hefði sparkað út í loftið og slegið í bifreiðar.
„Þegar lögregla ætlaði að ræða við manninn reyndi hann að hlaupa undan lögreglu en var hlaupinn uppi og vistaður í fangageymslu vegna ástands,“ segir í dagbókinni.
Tilkynnt var um tvo menn sem slógust fyrir utan verslun í miðbænum. Annar þeirra var handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.
Þá var lögregla kölluð til vegna eignaspjalla í skóla þar sem rúða var brotin.