Maðurinn sem féll ofan í gil í Skaftafelli fyrr í dag var staddur við Hundafoss. Hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann.
Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, er ekki ljóst um meiðsli mannsins en hann er ekki talinn alvarlega slasaður.
Svo virðist sem þyrla Gæslunnar hafi verið á flugi skammt frá slysstaðnum þegar hjálparbeiðnin barst og var hún því komin tiltölulega snemma á vettvang.
Jón Þór hefur ekki upplýsingar um hvort maðurinn hafi verið einn á ferð.
Aðspurð segir lögreglan á Suðurlandi að verið sé að skoða meiðsli mannsins en hún getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.