Þriðja barnið sem banað er á árinu

Þremur börnum hefur verið ráðinn bani á árinu.
Þremur börnum hefur verið ráðinn bani á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjö manns hefur verið banað á árinu af hendi annarrar manneskju, í samtals sex málum.

Af þessum sjö sem hefur verið ráðinn bani eru börn fórnarlömb í þremur tilvika. Í heild hafa tólf manneskjur verið myrtar á Íslandi á u.þ.b. síðustu átján mánuðum.

Fyrsta málið þar sem barn var fórnarlamb kom upp á Nýbýlavegi í janúar. Kona um fimmtugt hefur viðurkennt að hafa ráðið sex ára syni sínum bana og reynt að valda einnig eldri syni sínum skaða.

Þá leiddi hnífsstunga á Menningarnótt til andláts Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sautján ára nemanda við Verzlunarskólann.

Sextán ára piltur er í haldi, grunaður um verknaðinn.

Í dag barst tilkynning frá lögreglu um að stúlka á grunnskólaaldri hefði verið myrt og að karlmaður sé í haldi grunaður um verknaðinn.

Er hann sagður sjálfur hafa hringt í lögreglu vegna málsins.

Fjögur manndrápsmál þar sem fullorðnir eru fórnarlömb

Á þessu ári hafa þrjú manndrápsmál komið til kasta lögreglu þar sem fórnarlömbin eru fullorðin.

Manni var ráðinn bani í sumarhúsi í Kiðjabergi í apríl og voru tveir menn frá Litháen færðir í gæsluvarðhald vegna þess.

Þá fannst kona um fimmtugt látin í heimahúsi á Akureyri en karlmaður á sjötugsaldri var handtekinn vegna málsins.

Loks var hjónum ráðinn bani í Neskaupsstað í ágúst. Karlmaður er í haldi grunaður um verknaðinn.

Fimm manndrápsmál á síðasta ári

Fimm morð voru framin á síðasta ári. Þann 20. apríl 2023 var pólskur maður stunginn til bana í Hafnarfirði á bílastæðinu við Fjarðarkaup. Landsréttur dæmdi í júní nítján ára karlmann í 12 ára fangelsi fyrir morðið.

Þann 27. apríl var konu ráðinn bani í heimahúsi á Selfossi.

Rannsókn málsins stóð enn yfir í júní síðastliðnum en karlmaður sem grunaður er um verknaðinn fannst látinn í Taílandi nýlega.

Þann 17. júní var maður stunginn til bana í Hafnarfirði, en meðleigjandi mannsins fékk 16 ára dóm fyrir morðið.

Sjö dögum síðar lést 25 ára gamall maður eftir líkamsárás á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Maður á þrítugsaldri var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins.

Þá fannst maður látinn á heimili sínu í Bátavogi þann 21. september með fjölda áverka. Sambýliskona hans var handtekin, grunuð um verknaðinn, en Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hana í tíu ára fangelsi í júlí.

Hún hefur áfrýjað dóminum til Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert