Ekkert hefur enn spurst til Illes Benedek Incze, sem lögregla og björgunarsveitarfólk hefur leitað að í nótt og í fram eftir degi.
Að sögn Brynju Sverrisdóttur, aðalvarðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurlandi, eru um 80 manns við leit.
Meðal annars hefur ítarleg leit verið gerð við strandlengjuna út frá Vík sem og á fleiri svæðum að sögn Brynju en einn sporhunda rakti slóð út í fjöru en aðrir leitarhundar fóru annað.
Incze býr og starfar á Vík og að sögn Brynju tilkynnti vinnuveitandi hans um hvarfið. Engar ábendingar hafa borist um manninn frá því síðast sást til hans á aðfaranótt sunnudags.
Brynja segir að Incze hefði ekki tilkynnt um nein áform. Aðspurð segir hún manninn ekki hafa verið við skemmtanahald þegar hann lét sig hverfa.
„Hann býr með nokkrum öðrum mönnum og þetta var ekki eiginlegur gleðskapur sem hann var í. Við erum að skoða alla þræði og reyna að fá mynd á þetta og skoðum allar tilgátur. En það er ekkert sem við erum komin með í hendi annað en það að hann sást síðast klukkan þrjú um nóttina,“ segir Brynja.
Ekki er talið að hann hafi haft aðgang að bifreið og því afmarkast leitarsvæðið við Vík og nærliggjandi umhverfi.
„Í nótt voru víðavangshópar, leitarhundar og drónahópar við leit. Í dag hafa um 80 manns tekið þátt í leitinni. Uppistaðan er björgunarsveitarfólk en einnig lögreglumenn,“ segir Brynja.