Það er vel í lagt að láta sjávarútveginn greiða 33% af hagnaði af fiskveiðum í sérstakt veiðigjald. Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir skattlagninguna draga úr fjárfestingargetu fyrirtækjanna í greininni.
Þetta kemur fram í samtali við Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS í Spursmálum.
Bendir hún á að sé tekið tillit til tekjuskatts þá greiði útgerðin 58% af hagnaði sínum í skatta.
Umræðan um þetta spinnst í kjölfar þess að matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem miðar að því að hækka veiðigjaldið enn frekar og banna um leið að gjaldið sé frádráttarbært við útreikning á tekjuskatti.
Samkvæmt skýrslu sem hagfræðingarnir Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Árnason tóku saman fyrir SFS kemur fram að með breytingunum verði virkur tekjuskattur á veiðar á botnfisktegundum 71%, nái áform ráðherrans fram að ganga og 83% á uppsjávartegundir.
Heiðrún Lind nefnir í viðtalinu að núverandi skattheimta sé íþyngjandi, þrengi að fyrirtækjunum um nýfjárfestingu ýmiskonar.
„Þetta eru mörg fyrirtæki og fjölbreyttur atvinnurekstur í sjávarútvegi og fiskveiðum. Það eru lítil fyrirtæki og stór fyrirtæki. Okkur hættir til að horfa einvörðungu til þeirra sem eru mest áberandi. Fjárfestingar hafa verið blómlegar, klárlega, 2022 voru fjárfestingar rétt rúmlega 30 milljarðar, bæði í skipum og vinnslu en fjárfestingar þurfa að vera vel yfir 20 milljarðar króna, bara í endurnýjun skipa og tækja um borð í skipum þannig að við séum að halda dampi. Skipaflotinn er enn þá tiltölulega gamall, þrátt fyrir að við horfum á þessi glæsilegu skip,“ segir Heiðrún.
Og hún bendir á að fyrirhuguð orkuskipti feli einnig í sér gríðarlegar áskoranir fyrir greinina.
„Þannig að endurnýjunar er áfram þörf en síðan megum við heldur ekki horfa fram hjá því að það er verkefni í gangi um það að fara í orkuskipti í sjávarútvegi. ÞAð hvað kemur í staðinn fyrir olíu er ekki komið en það eru fram veginn enn meiri fjárfestingar en eru í dag. Bara það að fjárfesta í nýrri tækni til að spara olíu, það getur þýtt 20, 30 og upp í 50% dýrara skip. Þannig að ef skip kostar 7-8 milljarða í dag, segjum frystitogari þá getur það farið vel yfir 10 milljarða króna, eitt, einn frystitogari, þannig að þetta eru miklar fjárfestingar sem þurfa að eiga sér stað og þá verður maður að gæta þess að ríkið taki ekki of stóran skerf til sín þannig að það verði ekki borð fyrir báru til að fjárfesta.“
Viðtalið við Heiðrúnu Lind má sjá og heyra í heild sinni hér