„Þetta var nú bara einn helvítis hlunkur,“ segir Finnur Sigurbjörnsson, íbúi á Hofsósi, um jarðskjálftann í gærkvöldi í Brekknafjalli norðan við Hofsós, sem mældist 3,1 að stærð. Segir hann skjálftann þó vera eins og fermingardreng miðað við Skagafjarðarskjálftann mikla frá 1963.
Segist Finnur hafa orðið mjög var við skjálftann.
„Ég er búinn að heyra að þetta hafi fundist víða og þetta var alveg áberandi þarna sem ég bý. Hann skók húsið aðeins. Þetta er svo stutt frá upptökunum.“
Finnur, sem hefur búið alla sína ævi á Hofsósi, segir að skjálftinn í gær hafi ekki verið neitt í líkingu við hinn mikla Skagafjarðarskjálfta frá 1963. Sá er talinn hafa verið 7 stig á Richter-kvarða og einn sá stærsti á síðustu öld.
„Nei, nei, nei, nei, nei, þetta var nú bara eins og fermingardrengur miðað við það,“ segir Finnur er hann er spurður hvort skjálftinn í gær hafi verið í einhverri líkingu við skjálftann frá 1963.
„Ég var nefnilega fimm ára þegar hann kom og við sváfum úti í bíl sem eftir var nætur þegar það gerðist. Húsið bara sprakk allt sundur og saman heima. Það var rosalegur skjálfti,“ bætir hann við.
Segir Finnur að engir eftirskjálftar hafi fundist í gær og nefnir hann þá að skjálftinn hafi verið óvenjulítill miðað við hvað upptök skjálftans voru nálæg.
Líkt og Finnur benti á fannst skjálftinn víða og það getur Anna María Hafsteinsdóttir, íbúi við Sauðárkrók, vottað.
Segir hún sig og eiginmann sinn hafa fundið vel fyrir skjálftanum í gærkvöldi.
„Við sátum hérna og vorum að horfa á sjónvarpið og þá bara kom þessi rosa druna og titringur og við vorum alveg klár á því að það væri jarðskjálfti.“
Segist Anna hafa búist við því að skjálftinn hefði mælst stærri vegna þess hve vel fannst fyrir honum alla leið til Sauðárkróks.
Nefnir hún þá að þau hjónin séu ekki vön því að finna fyrir skjálftum á sínum slóðum og hafi því brugðið fyrir önnur kenning áður en þau sammæltust um að um jarðskjálfta hlyti að ræða.
„Við vorum mikið að spá í hvort það væri einhver að sprengja einhvers staðar eða eitthvað. Við erum svo óvön þessu hérna.“