Glæpastarfsemi hér á landi hefur orðið mun skipulagðari síðustu tíu ár.
Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar.
„Ég held að fólk geri sér ekki alveg grein fyrir hversu skipulögð skipulögð brotastarfsemi er,“ bætir hann við.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í dag tengjast nokkuð hundruð manns skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi með einum eða öðrum hætti. Þetta kom fram í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá árinu 2021.
Í skýrslunni segir að tiltækar upplýsingar bendi til að erlendir hópar séu um flest betur skipulagðir en þeir innlendu. Starfsemin sé síður háð tilviljunum og meiri „atvinnumennska“ einkenni hana, t.a.m. hvað verkaskiptingu varðar.
Ásgeir Karlsson lögreglumaður kvaðst telja að hér á landi væru um 8-12 erlendir glæpahópar.
Grímur segir upplýsingarnar í skýrslunni að vísu ekki nýjar en að þetta eigi þó enn við.
„Þetta er mjög skipulögð starfsemi.“
Er erfiðara að eiga við hópa sem eru með tengsl erlendis?
„Já, það er að einhverju leyti flóknara en það er engu að síður þannig að við erum í ágætum og mjög góðum tengslum við erlendar löggæslustofnanir, eins og Europol og Interpol. Við erum náttúrulega líka í Schengen-samstarfinu og í því felst ákveðið lögreglusamstarf. Síðan erum við í mjög góðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar, og Evrópuþjóðirnar og Bandaríkin.“
Grímur segir glæpamenn í dag skipulagðari en áður og vísar m.a. í alþjóðlega samskiptamiðilinn Ghost sem lögreglan á Íslandi tók þátt í að taka niður á dögunum.
Miðillinn var dulkóðaður og var notaður sem spjallvettvangur fyrir skipulagða glæpastarfsemi á borð við manndráp, fíkniefnasmygl, spillingu og peningaþvætti.
„Við sjáum bara hvernig skipulagið er hvað það varðar. Það er verið að hafa dulkóðuð samskipti. Ég myndi segja að síðasta áratug hafi orðið veruleg aukning á skipulagningu á brotastarfsemi,“ segir Grímur og bætir við:
„Menn eru með allar klær úti til þess að skipuleggja sig.“