Óvenjuleg tilkynning: 19 í gæsluvarðhaldi

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu þar sem bent er á …
Lögreglan sendi frá sér tilkynningu þar sem bent er á aðstöðuleysi lögreglunnar. mbl.is/Eggert

Nítján manns sitja nú í gæsluvarðhaldi lögreglunnar á Suðurnesjum. Flestir í tengslum við aðgerðir lögreglu á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ellefu eru í haldi vegna innflutnings á fíkniefnum. Aðrir sitja inni vegna meintra brota á útlendingalögum og vegna gruns um mansal.

Þetta kemur fram í tilkynningu vef lögreglunnar.

Tilkynningin er um margt óvenjuleg þar sem sérstaklega er vikið að álagi á lögreglu í ljósi Schengen-samstarfsins. Bent er á að ekki sé til staðar viðunnandi aðstaða til að hýsa þá sem eru í gæsluvarðhaldi. 

Fjölþjóðlegur hópur í gæsluvarðhaldi 

Einn Íslendingur er í hópi þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi. Aðrir eru frá Gana, Egyptalandi, Frakklandi, Súrínam, Hollandi, Kanada, Georgíu, Marokkó, Tékklandi, Brasilíu og Kólumbíu.

„Þeir sem innbyrt hafa fíkniefni skila þeim af sér í gegnum meltingarveg í sérútbúinni aðstöðu á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ. Aðstaða sem ekki er að finna á öðrum lögreglustöðvum eða fangelsum hér á landi," segir í tilkynningunni.

Tilkynningin er óvenjuleg fyrir þær sakir að Schengen-samstarfið er gert að umfjöllunarefni. Bent er á að álag á starfsmenn sé mikið ekki síst í ljósi fjölda frávísunarmála og segir jafnframt er vikið að Schengen samstarfinu sem hófst 2001.

„Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að ekki hafi tekist betur til í áranna rás að halda uppi öflugra landamæraeftirliti og þá ekki síst á innri landamærum. Það sem af er þessu ári eru frávísunarmálin orðin 622, en voru 439 í fyrra,“ segir í tilkynningu.

„Hriktir í stoðum landamæraeftirlits Evrópu“ 

„Fyrir íslenska þjóð skiptir eftirlit á innri landamærum Schengen gríðarlega miklu máli ekki síst þegar hriktir í stoðum landamæraeftirlits í Evrópu. Áherslur hafa verið á ytri landamærum Schengen samstarfsins en innri landamærum hefur að sama skapi verið gefinn lítill gaumur. Með breyttum áherslum, þjálfun og verklagsreglum hefur lögregla og tollgæsla haldið úti eftirliti öðru en kerfisbundnu á innri landamærum á Keflavíkurflugvelli. Greining farþegaupplýsinga frá flugfélögum er lykilþáttur í eftirliti á innri landamærum en hefur ekki áhrif á afnám persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen ríkjanna. Frumkvæðisvinna og innlend sem erlend lögreglusamvinna er mikilvæg," segir í tilkynningu. 

Sinna störfum úr gámum 

„Á sama tíma býr lögreglan á Suðurnesjum við aðstöðuleysi en eins og kunnugt er hefur einungis verið hægt að nota fangaklefa lögreglustöðvarinnar í Reykjanesbæ og hefur svo verið frá því í október á síðasta ári. Stöðin hefur að öðru leyti verið ónothæf. Unnið er að endurbótum en brýnt er að hraða framkvæmdum, en áætlað er að þeim ljúki í febrúar á næsta ári. M.a. verða settir upp sérútbúnir gámar til bráðabirgða til að bæta vinnuaðstöðu lögreglu. Lögreglustjóri hefur lagt á það áherslu að verkinu verði lokið á þessu ári, en alls er óvíst að framkvæmdum ljúki á tilsettum tíma. Reyndar bendir fátt til þess,“ segir í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka