„Þetta var í Reynisfjallinu og aðstæður voru mjög erfiðar vegna staðsetningarinnar,“ segir Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi, um umfangsmikla leit að Benedek Incze sem fannst látinn í fjallinu í gærkvöldi.
Þyrlu þurfti til að komast að líki Incze í kjölfar umfangsmikilla aðgerða og leitar björgunarsveita, lögreglu og Landhelgisgæslu. „Það voru nokkuð margir sem komu að þessu,“ segir aðalvarðstjórinn og svarar því aðspurður að nokkuð hafi verið um leitir að fólki í umdæminu í sumar.
„Í sumum tilfellum voru menn ekki týndir, það þurfti bara að sækja þá, í raun hafa fáir verið alveg týndir undanfarið. Svo kom auðvitað eitt falsboð, frá Kerlingarfjöllum, og það var býsna umfangsmikið,“ segir aðalvarðstjórinn og rifjar upp dýra gamansemi einhvers eða einhverra.
Líkfundarmálið á Reynisfjalli er nú til rannsóknar hjá embættinu að sögn Þorsteins.