„Lögreglan hefur talað um það að það séu vísbendingar um að hér á landi séu nokkuð margir glæpahópar og þeir eru alltaf að verða skipulagðari og skipulagðari og við höfum áhyggjur af því að það skipulag nái einnig til annarra landa.“
Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is en í viðtali við danska fréttamiðilinn TV2 í gær sagði Guðrún að sænskir glæpahópar hefðu sent fólk til Íslands til þess að fremja afbrot.
Spurð út í ummælin segir Guðrún: „Við erum að sjá vísbendingar um að það séu kannski meiri tengsl við erlenda glæpahópa en við höfum gert okkur grein fyrir og það er bara gríðarlega mikilvægt að við höldum vöku okkar hvað það varðar.“
Þá segir hún að borið hafi á vísbendingum um þetta í nokkurn tíma.
„Við erum auðvitað búin að sjá það í nokkuð langan tíma að skipulögð brotastarfsemi teygir orðið anga sína hingað til Íslands og það getur verið frá öðrum löndum,“ segir Guðrún og bætir við:
„Eins og ég segi þá höfum við miklar áhyggjur af þessu og við teljum svo vera að erlendir glæpahópar og glæpagengi séu að reyna að ná meiri fótfestu hér á landi.“
Guðrún segir að lögreglan sé mjög meðvituð um þessa stöðu og nefnir sérstaklega lögregluna á Suðurnesjum í því samhengi.
„Lögreglan á Suðurnesjum hefur verið alveg gríðarlega öflug á þessu ári í að snúa við fólki á landamærunum og í mörgum tilfellum er það vegna þess að þau telja að þarna sé um skipulagða brotastarfsemi að ræða og þá er þetta kannski tengt inn í eiturlyfjaheiminn, mansal og svo framvegis.“
Spurð hvort að það séu ákveðnir glæpahópar sem beini sérstaklega sjónum sínum hingað til lands segist Guðrún ekki treysta sér til að segja neitt um það.
Hún segir þó að vísbendingar séu um að nokkuð margir glæpahópar séu með starfsemi hér á landi og að einhverjir þeirra teygi anga sína til annarra landa.
„Það er einkenni á skipulagðri brotastarfsemi að hún er ekki bundin við landamæri.“
Þá talar Guðrún um að vísbendingar séu um að glæpastarfsemin sé að verða sérhæfðari og sömuleiðis að samskipti séu milli glæpahópa hér á landi.
„Þetta er vitaskuld mikið áhyggjuefni og lögreglan er meðvituð um að það þurfi að bregðast hart við,“ segir Guðrún að lokum og bætir við:
„Í þessu sambandi lagði ég mikla áherslu á að klára lögreglulögin á þinginu í júní til þess að veita lögreglunni okkar sambærilegar heimildir [og á Norðurlöndunum] við rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi og öðrum glæpum.“