Gelt og urrað á Hrafnhildi: „Ég hef verið kölluð api þrisvar“

Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir, nemi við Háskóla Íslands, segir þó nokkuð bera á fordómum á Íslandi. Hún segist ítrekað hafa verið kölluð api og fólk jafnvel gelt eða urrað á hana úti á götu.

Hrafnhildur er ættleidd frá Kína og er dóttir Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Kveðst hún viss um að það sé hennar mesta lukka að hafa hitt móður sína og flutt til Íslands fyrir 21 ári, aðeins eins árs gömul. Hún vilji sömuleiðis halda að hún sé frábær viðbót við íslenskt samfélag.

„Ég er nú ein af fáum nemendum sem lærir íslensku við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að halda uppi, eins og sumir vilja kalla það, deyjandi tungumáli og menningu.“

”Ching chong ching” vísunni ekki verið útrýmt

Segir hún afskaplega sorglegt að svo virðist sem fordómar hafi fengið sérbyggðan hægindastól í íslensku samfélagi. Hún sé þreytt á að svara fyrir sig í hvert sinn sem hún lendi í fordómum og þurfi að finna sniðug svör við þeim.

„Ég á ekki að þurfa að verja minn tilvistarrétt,“ segir Hrafnhildur.

„Frá upphafi sumars og til dagsins í dag hefur verið gelt á mig á leið í skóla, í skóla, á leið heim úr skóla, í verslunum, fyrir utan verslanir, fyrir utan vinnu, á leið í strætó, í strætó og á leið heim úr strætó,“segir Hrafnhildur í Facebook færslu, en hún baðst undan viðtali og vísaði í færsluna.  

„Ég hef verið kölluð api þrisvar sinnum og komst að því að ”ching chong ching” vísunni, sem ég komst fyrst í kynni við á leikskólaaldri, hefur enn ekki verið útrýmt.“ 

Ábyrgðin á útrýmingu kynþáttafordóma hjá samfélaginu

Hún segir börn sömuleiðis í síauknum mæli tala við sig að fyrra bragði á ensku sem hún telji ekki vera vegna enskuvæðingar hér á landi. 

Hún biðlar því til fólks að deila því að slík hegðun sé hvorki flott, sniðug né fyndin heldur kjánaleg, lúðaleg og heimskuleg. Ábyrgðin á útrýmingu kynþáttafordóma ætti ekki að liggja á hennar herðum né annarra litaðra einstaklinga heldur á samfélaginu.

„Mér finnst ég ekki biðja um mikið þegar ég óska eftir því að fólk tali á íslensku á Íslandi,“ segir Hrafnhildur og segir sömuleiðis að henni þyki ekki of mikið að fólk leyfi henni að ganga um götur í friði.

„Ef einhver þeirra sem hafa verið að gelta á mig nýlega les þetta vil ég að þið vitið að ég fæ kjánahroll upp á bak í hvert sinn og að þið ýtið mjög upp mínu eigin sjálfsáliti vegna þess að ég veit að ég myndi aldrei leggjast jafn lágt og þið.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert