Drög að ályktun: VG sprengi ríkisstjórn

Formenn ríkisstjórnarflokkanna.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagt hefur verið til að Landsfundur Vinstri grænna álykti að tímabært sé að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Þetta kemur fram í drögum að ályktunum frá málefnahópum og félögum til umræðu og afgreiðslu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Landsfundur VG fer fram helgina 4.-6. október.

„Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar að tímabært sé að horfa til þess að slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa. Þannig komst á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna og hefur hreyfingin náð fram afar mikilvægum málum,“ segir í drögum að ályktuninni sem heldur áfram:

„Má þar nefna nýja þungunarrofslöggjöf, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, efling heilsugæslu, bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, lög um kynrænt sjálfræði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir,hömlur á jarðasöfnun, lenging fæðingarorlofs, friðlýsingar á náttúruperlum og þrepaskipt skattkerfi. Undir forystu Vinstri grænna var einnig brugðist við COVID-faraldurinn af ábyrgð, sem reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina. Nú eru hins vegar önnur brýn verkefni fram undan og það er mat landsfundar að ekki sé unnt að takast á við þau í núverandi stjórnarsamstarfi.“

Ályktunardrögin bera fram nokkrir flokksfélagar í VG, þau Andrés Skúlason, Auður Alfífa Ketilsdóttir, Einar Ólafsson, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Halla Gunnarsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Saga Kjartansdóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir og Sveinn Máni Jóhannesson.

Svandís ein í formannsframboði

Svandís Svavars­dótt­ir innviðaráðherra ætl­ar að bjóða sig fram til for­manns og hefur enginn annar tilkynnt um framboð að svo stöddu. 

Haft er eft­ir Svandís í frétt RÚV að hún vilji flýta alþing­is­kosn­ing­um þannig að kosið verði í vor, en ekki næsta haust líkt og stend­ur til.

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fé­lags­mála- og vinnu­markaðsráðherra og starfandi formaður flokks­ins, sagði á mánudag að hann hygðist ekki gefa kost á sér til for­manns. Hann ætlaði hins veg­ar að styðja Svandísi, en bjóða sig sjálf­ur fram til vara­for­manns.

Jó­dís Skúla­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna, hef­ur einnig gefið kost á sér í embætti vara­for­manns.

Svandís segir skrýtið ef samstarfið yrði ekki rætt

Í samtali við mbl.is í dag var Svandís spurð um orðróm þess efnis að tillagan um stjórnarslit – sem nú hefur formlega litið dagsins ljós – yrði lögð fram. Þá sagði hún:

„Ég held að það væri mjög skrýtið annað en að við mynd­um ræða okk­ar sam­starf í rík­is­stjórn og ann­ars staðar þar sem við erum í sam­starfi. Það er alltaf ákveðin áskor­un með flokka og stjórn­mála­hreyf­ing­ar sem hafa skýra sýn að deila sín­um mark­miðum með fólki sem er kannski allt annarr­ar skoðunar,“ sagði Svandís og bætti við:

„Þegar við erum á þeim tíma­mót­um að vilja horfa inn á við og vilja horfa í ræt­urn­ar þá hlýt­ur þetta að vera á dag­skrá og þetta er al­veg ör­ugg­lega eitt af því sem við vilj­um ræða,“ bæt­ir hún við.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert