Lagt hefur verið til að Landsfundur Vinstri grænna álykti að tímabært sé að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Þetta kemur fram í drögum að ályktunum frá málefnahópum og félögum til umræðu og afgreiðslu á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.
Landsfundur VG fer fram helgina 4.-6. október.
„Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 4. til 6. október 2024 ályktar að tímabært sé að horfa til þess að slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Ríkisstjórnin var upphaflega mynduð árið 2017 í kjölfar óvæntra kosninga og í skugga pólitísks óróa. Þannig komst á festa í stjórnmálum undir forystu Vinstri grænna og hefur hreyfingin náð fram afar mikilvægum málum,“ segir í drögum að ályktuninni sem heldur áfram:
„Má þar nefna nýja þungunarrofslöggjöf, endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, efling heilsugæslu, bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis, lög um kynrænt sjálfræði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir,hömlur á jarðasöfnun, lenging fæðingarorlofs, friðlýsingar á náttúruperlum og þrepaskipt skattkerfi. Undir forystu Vinstri grænna var einnig brugðist við COVID-faraldurinn af ábyrgð, sem reyndist mikið gæfuspor fyrir þjóðina. Nú eru hins vegar önnur brýn verkefni fram undan og það er mat landsfundar að ekki sé unnt að takast á við þau í núverandi stjórnarsamstarfi.“
Ályktunardrögin bera fram nokkrir flokksfélagar í VG, þau Andrés Skúlason, Auður Alfífa Ketilsdóttir, Einar Ólafsson, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, Halla Gunnarsdóttir, Helgi Hlynur Ásgrímsson, Saga Kjartansdóttir, Steinunn Rögnvaldsdóttir og Sveinn Máni Jóhannesson.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra ætlar að bjóða sig fram til formanns og hefur enginn annar tilkynnt um framboð að svo stöddu.
Haft er eftir Svandís í frétt RÚV að hún vilji flýta alþingiskosningum þannig að kosið verði í vor, en ekki næsta haust líkt og stendur til.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og starfandi formaður flokksins, sagði á mánudag að hann hygðist ekki gefa kost á sér til formanns. Hann ætlaði hins vegar að styðja Svandísi, en bjóða sig sjálfur fram til varaformanns.
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur einnig gefið kost á sér í embætti varaformanns.
Í samtali við mbl.is í dag var Svandís spurð um orðróm þess efnis að tillagan um stjórnarslit – sem nú hefur formlega litið dagsins ljós – yrði lögð fram. Þá sagði hún:
„Ég held að það væri mjög skrýtið annað en að við myndum ræða okkar samstarf í ríkisstjórn og annars staðar þar sem við erum í samstarfi. Það er alltaf ákveðin áskorun með flokka og stjórnmálahreyfingar sem hafa skýra sýn að deila sínum markmiðum með fólki sem er kannski allt annarrar skoðunar,“ sagði Svandís og bætti við:
„Þegar við erum á þeim tímamótum að vilja horfa inn á við og vilja horfa í ræturnar þá hlýtur þetta að vera á dagskrá og þetta er alveg örugglega eitt af því sem við viljum ræða,“ bætir hún við.
Fréttin hefur verið uppfærð.