Talsverður styr hefur skapast innan herbúða Pírata eftir að ný stjórn fékk brautargengi í kjöri til framkvæmdastjórnar flokksins. Eftir kosninguna hefur verið lögð fram tillaga um að fjölga í stjórn til að koma að fólki í framkvæmdastjórnina sem ekki náði kjöri.
Nýr formaður framkvæmdastjórnar, er ekki hrifinn af slíkum hugmyndum og segir nýjan arm vera að myndast innan Pírata.
Atli Þór Fanndal var látinn taka pokann sinn og er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sögð bera ábyrgð á þeirri uppsögn.
Atli Þór gagnrýnir framgöngu flokksforystunnar og segir að fólk sem „telji sig sjálfskipaða heimsmethafa í lýðræði“ þurfi að lúta niðurstöðum kosninga.
Gömlu stjórninni var svo til skipt út í kjöri 7. september og fráfarandi formaður, Atli Stefán Yngvason, er varamaður í hinni nýju stjórn. Kjörnir voru fimm stjórnarmenn en þeir voru þrír samkvæmt fyrri samþykktum flokksins.
Einn starfsmanna hans, Atli Þór Fanndal, samskiptastjóri Pírata, var rekinn eftir niðurstöðu kjörsins. Er ástæðan sögð sú að hann hafi smalað til fólki til þess að reyna að koma nýju fólki að.
Athygli vekur að fram hefur komið tillaga sem Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi, er skráð fyrir um að fjölgað verði í stjórn þannig að tveir nýir bætist við og þar af leiðandi tvö atkvæði í stjórninni.
Með þeim hætti myndi áðurnefndur Atli sem og Rúnar Herrera sem sat í fyrri stjórn aftur fá atkvæðisrétt.
Þykir sumum innan flokksins þessi tillaga koma þeim spánskt fyrir sjónir í ljósi meintra lýðræðislegra vinnubragða sem sögð eru hafa einkennt störf flokksins hingað til.
Atli Þór segir í samtali við mbl.is að flokksforystan hafi ætlast til að fá aðra kosningu og í stað þess að taka því að ný stjórn hafi verið kjörinn hafi þessi í stað verið ákveðið að þrýsta á að fleiri verði teknir inn í stjórn.
„Það er gert með þeim formerkjum að þetta sé einhver sáttatillaga. En málið er að jafnvel þó að fólk telji sig sjálfskipaða heimsmethafa í lýðræði þá getur fólk ekki breytt niðurstöðum kosninga eftir á,“ segir Atli Þór.
Atli segir að hans starf hafi meðal annars verið það að fá fólk til liðs við flokkinn. Jafnframt að það hafi verið hans sýn að virkja fólk til þátttöku í flokksmálum.
„En það er oft þannig í litlum flokkum, sem vilja vera litlir, þá er fólk sem hefur flotið efst vegna þess að flokksstofnanir hafa verið veikar. Það er þessi sami hópur sem hefur ekki viljað una niðurstöðu kosninganna,“ segir Atli Þór.
Ekki náðist á Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokksformann flokksins og Dóru Björt Guðjónsdóttir við vinnslu fréttarinnar. Hins vegar er haft eftir Þórhildi Sunnu í umfjöllun Heimildarinnar um málið að hún telji það ekki gott að algjör endurnýjun verði á framkvæmdastjórninni. Það sé ekki síst til aða passa upp á stofnanaminni hennar.
Atli Þór telur slík ummæli undarleg í ljósi þess að Halldór Auðar Svansson, sem nú er formaður stjórnar er fyrsti sveitarstjórnarfulltrúi Pírata í sögunni og varamaður á alþingi.
„Hann er því stofnanaminni í mannlegu formi. Þetta er bara rugl. Svona talar bara fólk sem kann ekki að fara með völd," segir Atli Þór.
Þá viðurkennir Þórhildur Sunna að í gangi séu umleitanir um að stækka stjórnina í umfjöllun Heimildarinnar.
„Það er flott fólk að koma inn í þessa stjórn. Þingflokksformaður Pírata verður bara að sætta sig við niðurstöðu kosninga. Í stað þess að reyna að berja á þessu fólki vegna þess að hún óttast um sína stöðu, þá á hún að reyna að fá fólk til þess að vinna með sér,“ segir Atli Þór.
Halldór Auðar Svansson, nýr formaður framkvæmdastjórnar, segir að tillaga um stækkun stjórnar hafi komið fram. „Ég er persónulega ekki sérstaklega hrifinn að þessu. Ég hef lagt áherslu á það frá upphafi kjörsins að varamenn væru velkomnir á fundi, en hefðu ekki atkvæðarétt,“ segir Halldór Auðar.
Hann staðfestir að tillaga um stækkun stjórnar hafi komið frá hópi fólks sem ekki hafi verið sáttur við að Atli Stefán hafi misst formennsku og sæti í stjórn.
Málið hefur ekki fengið efnislega umfjöllun í stjórn.
Atli Þór er sagður hafa verið maðurinn að baki hallarbyltingunni. Er það rétt?
„Hann var vissulega sumum frambjóðendum innan handar og studdi sum okkar. Og það má segja að nýr armur sé að myndast í flokknum. En svo eru deildar meiningar hvort að þetta samrýmist hlutverki starfsmanns að standa í þessu,“ segir Halldór Auðar.
Þannig að þú telur að honum hafi verið sagt upp vegna afskipta sinna?
„Já ég sé engar aðrar haldbærar skýringar.“
Hann staðfestir að sú ákvörðun hafi verið tekin af Þórhildi Sunnu, þingflokksformanni flokksins.
Píratar eru tiltölulega nýr flokkur og hópur sem hefur hreiðrað um sig í ábyrgðastöðum. Er þetta vísir að gömlu sögunni um að í flokki þar sem algjört jafnræði á að ríkja að sumir séu orðnir jafnari en aðrir?
„Já kannski. En einnig hefur kvarnast svolítið úr grasrótinni og svo þegar það kemur tillaga um útvíkkun og stækka flokkinn, þá koma kannski viðbrögð frá og núningur. Þetta er ekki enn svo stór flokkur og við ættum að geta unnið saman engu að síður,“ segir Halldór Auðar.