„Mig langar að vara ykkur við“

Útilokað er að fyrirbyggja að svikahrappar hringi úr einu númeri …
Útilokað er að fyrirbyggja að svikahrappar hringi úr einu númeri en noti annað sem eins konar yfirbreiðslu svo símtalið virðist koma úr því. Slíkar svindltilraunir koma í bylgjum að sögn upplýsingafulltrúa Símans. AFP/Justin Sullivan

„Ég er kannski ekkert svo óheppin, margir eru að lenda í þessu, en í mínu tilfelli var þetta birt í 50.000 manna grúppu,“ segir Aldís Sif Bjarnhéðinsdóttir í samtali við mbl.is en hún lenti í því að símanúmerið hennar var notað til að reyna að hafa fé af öðrum.

Fór þetta þannig fram að óprúttnir erlendir aðilar beittu því sem kallast „spoof“ til að hringja í fólk, en með þeim formerkjum að sá sem hringt er í sér íslenskt símanúmer á sínum símaskjá og uggir því ekki að sér. Í raun er þó hringt úr erlendu númeri og gengur hringjendum misgott til ætlunar.

Facebook-hópurinn sem Aldís nefnir er „Góða systir“ sem svo heitir og þar skrifar einn hópverja aðvörun til annarra:

„Mig langar að vara ykkur við. Í morgun fékk ég símtal úr íslensku númeri. Þetta var kona sem talaði ensku og um leið og hún minntist á evrur og að leggja inn á mig þá skellti ég á. Samkvæmt ja.is er þetta íslensk kona í Kópavogi...“

Hugleiddi að loka númerinu

Aldís rakst á færsluna og þekkti númerið þegar – enda hennar númer. „Það er hringt úr mínu númeri, eða í raun ekki úr mínu númeri, en mitt númer birtist hjá þeim sem hringt er í,“ segir Aldís sem ræddi við sitt símafyrirtæki og fékk þar þau svör að við þessu væri ekkert að gera, hún gæti tekið númerið sitt út af vefsímaskránni ja.is en annað væri ekki til ráða.

Þótti Aldísi þetta óþægilegt?

„Ég var að hugsa um að láta loka númerinu mínu, en þeir geta samt notað það þótt búið sé að loka því. Þessir svikarar eru búnir að fatta að Íslendingar svara ekki í erlend númer svo þeir eru farnir að nota íslensk númer,“ svarar hún.

Aldís hyggst ekki grípa til sérstakra aðgerða vegna málsins, hún hafi fengið þær upplýsingar að ekki tjói að loka á, eða „blokka“, númerið sem hringt sé úr, enda sé það í raun ekki númerið sem hringt er úr, heldur virðist bara vera það.

„Þetta er hvimleitt en það var nú einhver sem skrifaði athugasemd við færsluna og sagði „Takk fyrir að vara okkur við þessari“,“ segir Aldís að lokum og hlær.

Tengist skipulagðri glæpastarfsemi

Guðmundur Jóhannsson er upplýsingafulltrúi Símans og kannast vel við „spoof“. „Þetta er ekkert nýtt og kemur í bylgjum. Tæknilega er mjög auðvelt að falsa símanúmer og eiginlega ekki hægt að stoppa þetta eins og staðan er í dag, þetta kallar bara á árvekni fólks að passa sig,“ segir upplýsingafulltrúinn.

„Þetta eru náttúrulega bara óprúttnir aðilar og allt tengist þetta skipulagðri glæpastarfsemi, á meðan númerið virkar er reynt að nota það, annars er skipt yfir í næsta,“ segir Guðmundur og veltir því upp að númerin fái svikahrapparnir oft úr gagnalekum, til dæmis af síðum þar sem fólk hafi gefið upp netfang eða símanúmer.

„Slík gögn eru nýtt í allt mögulegt, til dæmis þegar fólk fær mikið af ruslpósti sem það er ekki vant að fá, þá hefur netfangið þess líklega lent í gagnaleka,“ heldur hann áfram.

Heyrið þið mikið frá ykkar viðskiptavinum sem lenda í þessu?

„Já, á hverjum degi koma einhvers konar tilkynningar og fyrirspurnir út af svona málum og öðrum tegundum netglæpa, þetta er náttúrulega bara úti um allt og því miður er erfitt að stoppa flestar af þessum tilraunum, þetta er bara raunveruleiki sem við búum við á stafrænum tímum og ég þreytist aldrei á að segja að þetta kallar bara á að fólk sé varkárt og stundi smá gagnrýna hugsun,“ svarar Guðmundur.

Hann segir engan skaða felast í því að svara í símann þegar um „spoof“ er að ræða, því fylgi engin hætta. „Vandamálin byrja fyrst þegar fólk fer að gefa einhverjar upplýsingar,“ segir Guðmundur Jóhannsson upplýsingafulltrúi Símans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert