Ein sviðsmynd Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir að gos komi upp á sama stað og síðast. Hraunflæðilíkön sýna að hraun myndi þá renna í átt að Reykjanesbrautinni, raflínum og vatnsbóli.
Síðasta eldgos var það stærsta hingað til en við verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði stærra.
Þetta kom fram í erindi Bergrúnar Örnu Óladóttur, sérfræðings á Veðurstofu Íslands, á upplýsingafundi með Vogamönnum í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga.
Almannavarnanefnd Suðurnesja utan Grindavíkur í samstarfi við Sveitarfélagið Voga boðuðu til fundarins. Fulltrúar Veðurstofunnar og Umhverfisstofnunar voru með erindi og sátu fyrir svörum.
Það eru þrjár sviðsmyndir í gildi í sambandi við mögulega staðsetningu næsta goss og eru þær allar taldar jafn líklegar.
Sviðsmynd 3 er að gossprunga opnist norðaustan við Stóra-Skógfell eða á svipuðum stað og síðast. Síðasta gos var stærsta gosið hingað til og teygði gossprungan sig jafnframt nær Reykjanesbrautinni en fyrri sprungur hafa gert.
Bergrún sagði að úr jarðsögunni væru dæmi um gosop sem hefðu opnast norðar en hefur sést frá því að jarðhræringar hófust í desember á síðasta ári.
Gasmengun er þó sú hætta sem er líklegust til að hafa áhrif á Voga.
„Þá eru í raun mögulegar hættur, eða hættur og möguleg áhrif í og við Voga. Það er sem sagt að við getum fengið gasmengun og töluvert mikla gasmengun. Við getum jafnvel fengið gjóskufall, við gætum fengið einhverjar sprungumyndanir og við getum fengið hraunrennsli.“
Ólíklegt þykir þó að hraun nái alla leið að Vogum þar sem sigdalir sunnan Voga geta tekið við miklu magni af hrauni. Hæð við Reykjanesbrautina myndar einnig náttúrulega vörn.
Veðurstofan er með hraunflæðilíkön sem miða við að eldgos verði á sama stað og síðast. Sýna líkönin að hraun myndi renna að mestu undan halla í átt að Reykjanesbraut sem og raflínum og vatnsbólum.
Í hraunflæðilíkönunum var miðað við tvær mismunandi stærðir af gosum. Í kraftminna gosinu, sem þó yrði stærra en síðasta gos, myndi hraun ekki ná að sjálfri Reykjanesbrautinni.
Ef kraftmeira gosið myndi brjótast út, sem í líkaninu er gert ráð fyrir að verði sjö sinnum stærra, gæti hraun náð að brautinni. Svo kraftmikið eldgos er þó talið ólíklegt.
Bergrún sýndi einnig tvö önnur líkön þar sem gert var ráð fyrir að gosið myndi byrja eilítið norðaustar en síðast.
Þar sýnir líkanið, sem miðar við sjö sinnum stærra gos, að hraun gæti náð að Vogum.
„Aftur vil ég minna á að þetta er sjö sinnum stærra heldur en gosið sem við sáum síðast og ég myndi ekki segja að það væri líklegt að það gerist í einum atburði,“ sagði hún.
Hún sagði að miðað við þriðju sviðsmyndina þá gæti orðið veruleg gasmengun í Vogum ef upphafsfasi goss er sterkur í samspili með óhagstæðri vindátt.
Þá gæti skyggni orðið takmarkað vegna gróðurelda og gosmóðu.
Hún sagði hættu vera á gjósku ef hraunið færi yfir Snorrastaðatjarnir en þá gæti sprengivirkni myndast.
Ekki er gert ráð fyrir því að kvikugangur geti náð undir Voga líkt og gerðist í Grindavík 10. nóvember og 14. janúar.
Næsti kvikugangur gæti þó valdið hreyfingum á sprungum nærri Reykjanesbrautinni. Þurfum við að vera undirbúin fyrir þá sviðsmynd.
Slíkur kvikugangur gæti einnig haft áhrif á gæði vatns í nærliggjandi vatnsbólum.
Sviðsmynd 1 gerir ráð fyrir eldgosi sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli en það er svipuð staðsetning og í eldgosinu sem hófst 14. janúar. Í því gosi opnaðist gossprunga innan við varnargarða Grindavíkur og hraun rann í bæinn.
Sviðsmynd 2 er eldgos milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells en það er á svipuðum stað og flest gos sem brotist hafa út síðan í desember.
„Við verðum líka að horfast í augu við það að gosin hafa farið stækkandi og við verðum að vera viðbúin því að næsta gos verði enn kröftugra en fyrri gos. Þess vegna er mjög mikilvægt að íhuga mótvægisaðgerðir í tengslum við áhrifamestu sviðsmyndirnar,“ sagði hún að lokum.