„Ég tók þessa ákvörðun vegna þess að ég er vanur sjósundi, en ég hef aldrei verið svona lengi,“ segir Theódór Gunnar Smith, matreiðslumaður, sjósundkappi, öndunarleiðbeinandi, „sweat lodge“-leiðbeinandi og „kælari“, sem setti Íslandsmet í ísbaði á þriðjudaginn með því að vera 45 mínútur og sex sekúndur á kafi í vatni við frostmark á Akureyri þar sem aðstoðarmenn jusu sífellt krapi niður í baðið til hans til að halda ofurkulda á Theódóri, eða Tedda eins og hann er kallaður í daglegu tali.
Teddi sagði mbl.is frá því hvernig slík þrekraun fer fram og hvað það er eiginlega sem fer gegnum höfuð fólks sem stundar ísböð, en þeir sem til þekkja virðast flestir á einu máli um að hér fari iðja sem sé hressandi og sálarbætandi umfram mannlegar athafnir aðrar – að minnsta kosti margar hverjar.
„Mig langaði að skora á hausinn á mér, sjá hversu langt ég gæti náð, ég stefndi á 60 mínútur,“ segir Teddi sem var nýkominn úr vinnu við matarveislu í Reykjavík í gærkvöldi þegar mbl.is ræddi við hann og hljómaði fullkomlega eðlilega – blaðamaður gaf sér að óvanir væru líklega enn í áfalli eftir að hafa gist á kafi í ískrapa tæpan klukkutíma í vikunni.
„Þetta er þannig að ég verð bara að mæta, ég tek þessa ákvörðun,“ segir matreiðslumaðurinn ákveðinn og kveður undirbúninginn fyrir slíka þrekraun gríðarlegan, en þau dr. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslu- og upplýsingatæknisviðs Háskólans á Akureyri, ásamt Kristjáni Halldóri Jenssyni, standa saman að öndunarnámskeiði á vegum símenntunar skólans sem Auðbjörg segir frá hér síðar í viðtalinu.
„Áður en ég fer ofan í ísbaðið þarf ég að undirbúa mig mjög vel með öndun og hita líkamann upp innan frá,“ segir Teddi sem styðst við öndunaraðferðir hins hollenska Wim Hof, „Ísmannsins“ sem svo er kallaður í hópi þeirra tug- ef ekki hundraða þúsunda ísbaðenda og sjósundiðkenda sem fylgjast með fræðum hans á lýðnetinu.
Teddi hitar sig upp með léttum armbeygjum og hnébeygjum auk þess að standa í söðulstöðunni svokölluðu (e. horse riding stance, jap. kiba-dachi) sem þekkt er úr ýmsum sjálfsvarnaríþróttum, þar á meðal karate.
„Svo fer ég ofan í og reyni að tæma hugann alveg,“ heldur Teddi áfram, „ef sársaukinn er mikill reyni ég að anda ofan í sársaukann án þess að gefa honum mikla athygli,“ segir hann og bætir því við að næsta skrefið sé að biðja aðstoðarfólk um meira krap ofan í pottinn þegar um tíu mínútur séu liðnar af vistinni. „Ég vil hafa nóg krap í pottinum, þegar ég er að nálgast 18-19 mínútur byrjar skjálftinn og þá fer þetta að verða ögrandi. Þá þarf maður að vanda sig með því að anda rosalega rólega,“ útskýrir hann og nefnir svo athyglisverða staðreynd.
Mikilvægt sé að áhorfendur sjái ekki að hann skjálfi, það þurfi hann að dylja eftir megni, ekki til þess að mælast helsti naglinn á Akureyri þá stundina heldur fyrir hans eigin andlegu hlið. „ég þarf að láta eins og ég sé ekki að skjálfa, þá næ ég pínu „taktík“ og svo er þetta bara öndunin, hvernig ég anda, hvort ég anda djúpt eða grunnt. Um leið og ég næ að róa mig byrja ég að anda rólega til að ná hjartanu niður. Þegar sársaukinn og kuldinn eru í hámarki fer hjartslátturinn alveg upp í 130,“ segir matreiðslumaðurinn blákalt og blaðamaður seilist eftir heitum kaffibollanum í köldum hryllingi frásagnarinnar.
Ekki er þó allt upp talið hér þótt ærið sé, öskrið er eftir. Auðvitað. „Þegar ég þarf að ná fullkominni stjórn, þegar ástandið er farið að ná tökum á hausnum á mér, þarf ég að taka svona nýjasjálandsöskur og finna stríðsmanninn innra með mér,“ segir Teddi frá og vísar til fornra bardagahefða nýsjálensku frumbyggjanna Maóría.
Eins segir hann mikla hjálp í því að spjalla við viðstadda um daginn og veginn, til dæmis mat eða annað huggulegt...alls ekki það sem hann er að gera í pottinum! „Ég er alltaf spurður spurninga inn á milli og um leið og ég er farinn að svara út í bláinn þarf að taka mig upp úr, það er mjög auðvelt að missa meðvitund þegar kuldinn er svona mikill,“ útskýrir hann.
Besta ástandið sé þegar spjallið nær því stigi að hann nær að hætta að hugsa um kuldann og aðstæðurnar. „Allt í einu voru liðnar 33 mínútur og þá sá ég alveg að ég gat þetta,“ rifjar hann upp af afrekinu á þriðjudaginn og bætir því við að þetta tákni þó alls ekki að hægt sé að fara að slaka á eins og hann lægi í heitum potti eftir góð átök í ræktinni.
„Maður þarf alltaf að halda fókus og hlusta á líkamann, alls ekki „panika“ og ekki gefa neinu sem er óþægilegt athygli, frekar bara að anda inn og anda því svo burt,“ útskýrir Teddi sem greinilega hefur marga fjöruna sopið í kuldafræðunum – eða kannski marga hveljuna sopið í hans tilfelli. Þá sé hvatning viðstaddra ekki lítils virði.
Að liðnum rúmum 45 mínútum lét Teddi gott heita, Íslandsmet upp á um það bil 42 mínútur var slegið en ferlinu þó engan veginn lokið. Maður klöngrast ekki bara upp úr núll gráða heitu vatni eftir tæpan klukkutíma og skellir sér í sturtu og gufu.
„Ég fer beint í „horse stance“ [sem áður er getið] og geri svo rólegar armbeygjur og hnébeygjur. Ég má alls ekki fara í heita pottinn í alveg hálftíma-fjörutíu mínútur eftir á. Ef ég geri það springur hjartað bara. Það er nóg að setja fingur ofan í heita pottinn til að finna þann sársauka sem því fylgir,“ segir Íslandsmeistarinn nýbakaði í kælingu.
Á þessu stigi virki viðkomandi eins og hann sé í vímu sem eru í raun sömu viðbrögð og líkaminn sýnir þegar fólk lendir í því að ofkælast verulega á fjöllum. Teddi varð einmitt fyrir vægri ofkælingu, líkami hans náði ekki að komast til baka í hefðbundinn líkamshita af eigin rammleik. Og þá var bara eitt í stöðunni:
„Ég varð að fara upp á bráðamóttöku þar sem ég var settur í hitateppi og hitablástur og þar var svo fylgst með mér, það er ekki verið að taka neina sénsa, til dæmis að ég fari í hjartastopp,“ segir Teddi frá.
Og hvað, varstu ekki skammaður á bráðamóttökunni?
„Jú jú, ég var alveg látinn heyra það,“ játar Teddi undanbragðalaust, „ég var auðvitað spurður hvað ég væri að gera. Það var hugsað mjög vel um mig á bráðamóttökunni á Akureyri og ég spurði þau hvort þau fengju einhvern tímann inn tilfelli eftir svona lagað og fékk þau svör að einu tilfellin væru eftir slys,“ heldur hann áfram en fer þó ekki í neinar grafgötur með þær heilsufarslegu umbætur sem kæling geti stuðlað að.
„Almenningur hefur rosalega gott af því að kæla. Þú ferð inn í kælingu eftir að hafa kannski verið fastur í einhverri rútínu á borð við kvíða eða ótta. Um leið og þú ert búinn að kæla í eina eða tvær mínútur finnurðu bara líkamann lifna við, það er eins og allt sé að virkjast,“ segir Teddi.
Eftir svo langar kælingar sem hann stundar líður honum að eigin sögn eins og hann hafi hlaupið heilt maraþon þegar líkaminn er búinn að ná sér eftir kuldann. „Þegar líkaminn fer í svona mikið kerfi við að reyna að byggja upp og laga tekur það með sér alls konar aðra hluti sem hafa kannski verið „blokkeraðir“, þetta er svolítið að „kikkstarta“ öllu í gang,“ útskýrir Teddi.
Hann hefur stundað kælingar síðan 2017, þó mismikið, og verið á sama tíma iðinn við sjósundið sem hann kveður einnig snúast mikið um hugarfar. „Auðvitað spyr maður sig fyrst hvað maður sé að gera að vera að fara í sundskýlu út í sjó um hávetur og þegar maður nær tökum á þessum efasemdum og nær að bægja þeim frá er maður um leið miklu nær því að geta náð öðrum markmiðum í lífinu.“
Teddi er þriggja barna faðir og heldur úti félagsskap sem kallast Dharmabreath auk þess að vera virkur í sjálfboðaliðahópnum Bataakademíunni ásamt ekki ómerkari manni en Tolla Morthens, listmálara og lífskúnstner, að öllum öðrum ólöstuðum, auk þess sem fylgjast má með allri þessari virkni á Instagram-síðu Tedda.
„Markmið mitt er að kenna og leiðbeina í öllu sem bjargaði lífi mínu andlega og lætur mér líða vel,“ segir Teddi frá en hann heimsækir til að mynda fanga landsins og vistmenn meðferðarheimila þar sem hann leiðir öndun og hugleiðslu auk þess að elda fyrir vistmenn meðferðarheimila um jól og áramót.
„Ég trúi því að kæling sé besta lyfið sem þú getur gefið líkamanum,“ segir Theódór Gunnar Smith að lokum af þessari kuldalegu iðju sinni sem þó hefur gefið honum svo mikið.
„Ég var fyrst að leita að leiðum til að róa mitt eigið taugakerfi,“ segir dr. Auðbjörg Björnsdóttir áðurnefnd sem hefur veg og vanda af öndunarnámskeiðinu Breathwork við símenntunardeild Háskólans á Akureyri en um er að ræða aðgengilegt vefnámskeið sem algjörlega er í fjarnámi.
„Svo fer ég í sweat hjá Tolla og hitti Tedda, sem er frámunalega góður kennari, hann leiddi öndunina þar og ég er nú með doktorspróf í kennslufræðum,“ segir Auðbjörg frá og hafi málin þróast þannig með þeim Tedda að þau hafi tekið höndum saman um að þróa téð námskeið – þetta var í nóvember í fyrra, fyrir tæpu ári.
Sjálf kveðst Auðbjörg ekki eins eitilhörð við kælingar og samstarfsmaður hennar, hún kæli þó annað veifið og stundi enn fremur sjósund. Öndunaræfingarnar séu hins vegar hennar ær og kýr enda hefur hún ofan á sex háskólagráður bætt við sig öndunarleiðbeinandanámi og telst nú í stakk búin til að kenna öðrum að anda sér til annars en bara lífs.
„Rétt eftir áramót fór ég aftur í sweat til Tolla þar sem Teddi stýrir öndun viðstaddra og þá sá ég fyrir mér að það væri hægt að búa þetta til sem fjarnám,“ segir Auðbjörg frá og bætir því hispurslaust við að þau vilji einfaldlega koma öndunarfræðunum til sem flestra, „þetta ætti að vera inni í námskrá grunnskóla, ég átti í miklum vandræðum með sjálfa mig í skóla og þetta hefði hjálpað mér verulega á þeim tíma“, segir Auðbjörg sem líklega á margfalt og um leið vafasamt brottrekstrarmet kvenkyns grunnskólanemenda í Garðabæ en hún var rekin sex sinnum úr skóla þar fyrir ýmis uppátæki sem ekki féllu innan hegðunarviðmiða samfélagsins þá – og gera varla heldur nú.
Glímdi Auðbjörg meðal annars við ofvirkni með athyglisbresti, ADHD, en sneri vörn í sókn síðar á ævinni og lauk einu háskólaprófi fyrir hvert skipti sem skólastjórnendur vísuðu henni á dyr.
„Núna nota ég öndunartæknina á hverjum degi, hún færir þér svo mikið vald, þarna er enginn sérfræðingur að segja þér neitt, þetta getur fólk gert sjálft,“ segir forstöðumaðurinn með vafasömu fortíðina og bendir á að öndunaræfingarnar í fjarnámi Háskólans á Akureyri séu engin geimvísindi, lengsta æfingin sé innan við 20 mínútur.
Leiðbeinendur námskeiðsins, eru Teddi og Kristján Jens en þeir byggja á kenningum áðurnefnds Wims Hofs og Bandaríkjamannsins Dans Gruhles, þeir leiða nemandann gegnum námskeiðið allt niður í – bókstaflega – hvern einasta andardrátt.
Ekki er nema mánuður síðan námskeiðinu var hleypt af stokkunum við við Símenntun háskólans fyrir norðan. „Við höfum haldið tvo viðburði í skólanum en sjálft námskeiðið er algjörlega fjarnám og virkar þannig að nemendur gerast áskrifendur að námskeiðinu í tvo mánuði og endurnýja svo áskriftina eftir þörfum og áhuga,“ útskýrir Auðbjörg.
Nemendur þarfnist ekki sérstakrar aðstöðu né þurfi þeir að setja sig í flóknar stellingar, í raun sé hægt að sitja í venjulegum stól eða liggja í þægilegri stellingu og fylgja leiðbeiningum þeirra Tedda og Kristjáns. Öndunin heyrist á upptökunni svo enginn þarf að óttast að vera kominn í helsta fallfag símenntunarinnar enda lýkur námskeiðinu ekki með prófi.
„Notandinn getur svo lengt hverja æfingu eins og honum sýnist,“ útskýrir Auðbjörg og segir aðspurð að konur séu í meirihluta þeirra sem skráð hafi sig til leiks, um tveir þriðju heildarfjöldans, en Auðbjörg hefur ekki aðgang að upplýsingum um aldur þátttakenda. Þau Teddi bíði svo spennt eftir viðbrögðum, sem nemendur eru vitaskuld beðnir um, en þau eru engin enn þá þar sem enginn hefur lokið námskeiðinu síðan það hófst nú á haustdögum.
„Hugmyndin er svo að búa til framhaldsnámskeið þar sem farið er dýpra í ýmsa þætti, til dæmis fyrir þá sem ætla að nota öndunaræfingarnar með kælingu,“ boðar Auðbjörg.
Hvernig finnst þér þessi tækni ríma við hinn dæmigerða lífstakt Íslendinga, sem er nokkuð hraður alla jafna?
„Mjög vel og þess vegna viljum við einmitt koma þessu til sem flestra,“ svarar Auðbjörg og hlær áður en hún segir frá verkefni á staðnum bæði fyrir norðan og í Reykjavík sem þau Teddi eru einnig með sem er öndun með dáleiðslu í allt að 75 mínútur.
Þar sé þá leiðbeinandi sem haldi hlustandanum við efnið auk þess sem slökunartónlist sé í bland og í kjölfarið fylgi ákveðin reynsla eða dáleiðsluumhverfi. Þar geti notandinn valið sér þemu á borð við „Letting go“ sem komi þá notandanum úr sínu hefðbundna og daglega umhverfi yfir í að geta hreinlega sleppt tökunum á tilverunni í nokkrar dýrmætar mínútur.
„Ég hef gert öndunaræfingarnar með strákunum mínum og mitt markmið er að koma þessu inn í grunnskólana. Það er ekkert langt síðan ég fattaði að ég hefði andað vitlaust alla ævina, ég var alltaf að anda upp í axlir, bara fight or flight“,“ segir dr. Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður kennslu- og upplýsingatæknisviðs Háskólans á Akureyri, og andar djúpt að skilnaði.