Jökulhlaupinu að ljúka

Rafleiðni hefur lækkað.
Rafleiðni hefur lækkað. mbl.is/Jónas Erlendsson

Rafleiðni er nánast komin í eðlileg gildi í Skálm og virðist því jökulhlaupi þar vera að ljúka.

Þetta segir Minney Sigurðardóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

„Við köllum þetta leka. Þetta er mjög algengur atburður á sumrin. Það er jarðhiti undir jöklinum sem bræðir jökulinn og það gerist hraðar á sumrin og svo koma svona litlar bylgjur út.“

Minney segir að síðan stóra jökulhlaupið átti sér stað í júlí hafi þrisvar sinnum komið upp svona litlir atburðir í Skálm. Hafi það verið í ágúst, svo í byrjun september og að lokum í gær.

Nefnir hún að þetta séu reglulegir atburðir sem gerist á sumrin og haustin.

Í athugasemd á Veðurstofu Íslands var fólk beðið um að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarveginum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu en segir Minney að hún muni líklega taka athugasemdina út seinna í dag.

„Það fer eftir því hvernig veður og vindur er þarna á svæðinu en við erum þá aðallega að tala um upptök árinnar við jökulsporðana þar sem gæti verið smá gasmengun en við höfum ekki fengið neinar tilkynningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka