„Nú er miðja lægðar stödd skammt suður af landinu og í dag fer hún til norðausturs með austurströndinni. Lægðin er grunn, rúmlega 1000 mb og er því ekki neitt stórviðri í vændum af völdum þessarar lægðar.“
Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Fyrripart dags má búast við austlægri átt, víða á bilinu 5-13 m/s.
Úrkomusvæði lægðarinnar liggur yfir landinu og því er víða rigning eða slydda með köflum.
Seinnipartinn verður vindur norðlægari og þá dregur smám saman úr úrkomu, en á sunnan- og vestanverðu landinu fer að stytta upp og léttir síðar til á þeim slóðum.
Hiti verður frá 1 stigi í innsveitum fyrir norðan, að 10 stigum á Suðurlandi þegar best lætur í dag.
Á morgun er síðan spáð norðan 3-8 m/s með björtum köflum.
Þá má búast við ákveðnari vind norðaustantil á landinu, norðvestan 8-13 m/s þar með dálitlum éljum fram að hádegi, en styttir síðan upp á þeim slóðum.
Hiti á morgun verður á bilinu 0 til 5 stig norðanlands, en 5 til 10 stig sunnantil yfir daginn.