Í leyniför á Bessastaði

Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Ágústsson hittust á leynifundi.
Ólafur Ragnar Grímsson og Guðni Ágústsson hittust á leynifundi. Samsett mynd

„Guðni Ágústsson hringdi í mig 12.7. og bað um að fá að hitta mig í trúnaði, yrði bara „milli okkar“. Gaf ég honum tíma eftir hádegi 13.7. Ég lét hann ekki skrifa í gestabókina og kunni hann að meta það, sýndi að þetta væri alger trúnaðarfundur. Hann sagði að enginn vissi að hann væri hér nema HÁ [Halldór Ásgrímsson].“

Þannig hefst frásögn frá Ólafi Ragnari Grímssyni þegar Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokks og þáverandi landbúnaðarráðherra fór á fund Ólafs Ragnars til þess að spyrja hann út í hvað hann hygðist gera í sambandi við fjölmiðlalögin sem á þeim tímapunkti voru til umræðu á Alþingi. Snérust þau um að takmarka eignarhald á fjölmiðlum. 

Ólafur fer yfir málið í nýrri bók er nefnist Þjóðin og Valdið, Fjölmiðlalögin og Icesave. Inniheldur hún ítarlegar dagbókarfærslur Ólafs í forsetatíð hans. 

Umdeilt frumvarp 

Fjölmiðlafrumvarpið var sett fram fyrir tilstilli Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Það var samþykkt í þinginu en Ólafur neitaði síðar að samþykkja þau. Fjölmiðlalögin voru síðar afturkölluð og lögð fram með breyttu sniði áður en þau fóru í gegnum þingið að nýju.  

Davíð Oddsson var forsætisráðherra.
Davíð Oddsson var forsætisráðherra. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Málið vakti mikla umræðu í samfélaginu og margir sem settu sig gegn því. Í bókinni segir að eftir Guðna sé haft að Davíð Oddson hafi ekki rætt fjölmiðlafrumvarpið fyrr en hann kom með það á ríkisstjórnarfund. Síðan þá hefðu verið samfelld vandræði.

Davíð hafi veitt lóð á vogarskálarnar

Ólafur segir í dagbókunum að honum hafi fundist Davíð hafa „tapað dómgreind“ í tengslum við frumvarpið og að hann hafi tjáð sig um það við Guðna. 

„Ýmsar uppákomur hefðu verið merki þess, m.a. í kringum heimastjórnarafmælið. Skaut þá GÁ [Guðni Ágústsson) inn í að Halldór hefði líka verið fjarverandi í mótmælaskyni. Ég sagði honum að umræður DO og Sjálfstæðisforystunnar um vanhæfi mitt, málskotsréttinn og forsetaembættið hefðu verið á þann veg að ég hefði orðið að verja embættið,“ er haft eftir Ólafi í bókinni. 

„Ef það hefði vantað lóð á vogarskálarnar varðandi ákvörðun mína 2. júní þá hefðu DO & co. komið með þau lóð. DO hefði alls ekki getað ályktað eftir fund okkar 17.5. að ég myndi staðfesta frumvarpið; þvert á móti,“ segir Ólafur Ragnar.

Gaf í skyn að frumvarpinu yrði hafnað 

Ólafur Ragnar segir að hann hafi sagt við Guðna að það væri ekki rétt fyrir hann að tjá sig beint um það hvað hann hygðist gera.

„Svo fór GÁ að spyrja um framhaldið. Hvað myndi ég gera við frumvarpið sem væri í þinginu? Ég sagði að ekki væri rétt að ég svaraði því beint því að þá væri ég að hafa skýr áhrif á störf Alþingis,“ er haft eftir Ólafi Ragnari í bókinni.

Taldi Ólafur að endurbætt fjölmiðlafrumvarp væri keimlíkt hinu fyrra. Ólafur segist hafa velt því upp hvað myndi gerast ef hann hafnaði frumvarpinu og gaf raunar í skyn að svo myndi verða.

Nokkur fjöldi áhorfenda lagði leið sína á þingpallana til að …
Nokkur fjöldi áhorfenda lagði leið sína á þingpallana til að fylgjast með umræðum um hið nýja fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma. mbl.is/Jim Smart

Guðna létt eftir fundinn 

Er Guðni þá sagður hafa spurt hvort forsætisráðherra hefði þingrofsrétt.

Að sögn Ólafs tilkynnti hann þá við Guðna að hann myndi ekki samþykkja þingrofsbréf frá Davíð Oddssyni. Fyrst myndi hann kanna hvort hægt væri að mynda aðra ríkisstjórn. 

Ég teldi að forsætisráðherra hefði ekki rétt til að rjúfa þing nema öll ríkisstjórnin með meirihluta Alþingis stæði að baki því; þá myndi forsetinn undirrita,“ ritar Ólafur.  

„Ég endurtók svo við GÁ þegar við kvöddumst að HÁ [Halldór Ásgrímsson gæti treyst því að ég myndi ekki undirrita þingrofsbréf ef DO kæmi með það til mín. Var greinilegt að GÁ létti mjög við þessi svör og var ánægður með þau,“ segir Ólafur Ragnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert