13 sagt upp hjá ÁTVR: 4 boðið annað starf

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir alltaf erfitt að segja …
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir alltaf erfitt að segja upp fólki.

Þrettán starfsmönnum var sagt upp hjá ÁTVR um mánaðamótin, en þar af var fjórum boðið annað starf. Um er að ræða sjö starfsmenn á skrifstofu og sex í verslunum. Þetta staðfestir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, í samtali við mbl.is.

Hún segir fjóra starfsmenn í verslunum hafa tíma til að hugsa sig um hvort þeir þiggi önnur störf hjá fyrirtækinu, en níu hætti störfum.

Uppsagnirnar séu liður í tilmælum stjórnvalda um aukna hagræðingu í rekstri ríkisins og stofnana til að takast á við breytingar í ytra umhverfi.

Verslunarstjórum boðin staða verkstjóra 

Tvær vínbúðir á höfuðborgarsvæðinu fara undir stjórn stærri vínbúða og verður staða verslunarstjóra í þeim lögð niður. Verslunarstjórum þeirra vínbúða hefur verið boðið að taka við stöðu verkstjóra, en Sigrún segir slíkt fyrirkomulag hafa tíðkast í Smáralind í nokkur ár.

Þá hafa stöður aðstoðarverslunarstjóra í fjórum vínbúðum verið lagðar niður.

„Stærstur hluti af þessu er breyting á skrifstofu en það eru 480 starfsmenn hjá ÁTVR í heildina,“ segir Sigrún, sem segir að ekki sé um fjölmennar uppsagnir að ræða þegar á heildina er litið. „En það er alltaf erfitt að segja upp fólki,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert