Hlíðaskóli rýmdur vegna vatnsleka

Ljósmynd/Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Grunnskólinn Hlíðaskóli í Hamrahlíð var rýmdur upp úr hádegi í dag eftir að úðari í úðakerfi gaf sig á neðri hæð skólans.

Samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var dælubíll sendur á staðinn.

„Vatn rann inn í kennslustofur og niður í kjallara. Búið er að taka mestallt vatnið og verið er að þurrka upp gólfdúk,“ segir Oddný Yngvadóttir, deildarstjóri við skólann.

Atvikið átti sér stað um klukkan 13 í dag og að sögn sjónarvotta var talsvert vatn sem lak um ganga skólans. Allur skólinn var rýmdur og haft var samband við foreldra. Þau voru beðin um að sækja yngri börnin og eldri börnin voru send heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert