Ekki er annað að sjá en að greiðslur til Jóns Jónssonar, svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru eða voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, hafi verið í samræmi við samninga og samþykktir sveitarstjórnar.
Einnig er ekki annað að sjá en Jón hafi gætt þess sem fulltrúi í sveitarstjórn að víkja sæti þegar samningar við fyrirtækin Strandagaldur ses. og Sauðfjársetur ses. voru til umfjöllunar.
Þetta er niðurstaða úttektar endurskoðunarstofunnar KPMG.
Jón fékk fyrr á árinu samþykkta kröfu sína um að rannsókn yrði gerð á þungum sökum sem á hann voru bornar af starfsmönnum sveitarfélagsins. Var hann meðal annars sakaður um fjárdrátt.
Jón, sem er þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, sagði í sumar að lykilstarfsmenn sveitarfélagins hefðu sakað sig um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins.