Reykjavíkurborg leitar að húsnæði fyrir leikskóla

Tillögur að húsnæði skulu berast eigi síðar en 15. október.
Tillögur að húsnæði skulu berast eigi síðar en 15. október. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg óskar eftir að taka á leigu 800-2.000 m² húsnæði í Reykjavík fyrir leikskóla ásamt 1.400-1.800 m² aðliggjandi útileiksvæði.

Þarf húsnæðið að vera hentugt, bjart, með vinnuumhverfi sem er hvetjandi, tekur vel á móti starfsfólki, börnum og foreldrum og endurspeglar góðan vinnuanda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Þar segir að miðað sé við að taka á leigu húsnæði sem er tilbúið til notkunar innan 6-18 mánaða frá undirritun leigusamnings og mögulegt er að eitt eða fleiri húsnæði verði tekið á leigu. 

Þá er gert ráð fyrir að leigutími verði 10-15 ár með mögulegri framlengingu og að húsnæðið skuli vera fullbúið til notkunar, án lauss búnaðar.

Tekið er fram í tilkynningunni að húsnæðið þurfi að bjóða upp á gott aðgengi fyrir alla, þ.m.t. hreyfihamlaða og hjólandi og gangandi vegfarendur. Einnig þurfi að vera hæfilegur fjöldi bílastæða miðað við staðsetningu fyrir starfsfólk og foreldra að fara með börn í leikskóla.

Tillögur skuli berast eigi síðar en 15. október

„Ekki eru gefnar upp nákvæmar stærðir né fjöldi einstakra rýma þar sem það er háð stærð húsnæðis og fjölda barna sem geta sótt leikskólann. Þegar tillaga að húsnæði, lóð og útileiksvæði liggur fyrir mun leigutaki meta tillögu leigusala og tilgreina nákvæmar kröfur um stærðir og fjölda rýma auk þess aðbúnaðar sem þarf að vera í hverju rými,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Gögn sem æskilegt er að fylgi þurfa m.a. að innihalda upplýsingar um afhendingartíma, stærð, staðsetningu og aldur húsnæðisins.

Einnig þurfa að koma fram upplýsingar um lóðarstærð, eignarhald og hvernig aðgengi að húsnæði er frá lóð og útileiksvæði og auk þess upplýsingar um fjölda bílastæða og aðkomu að lóð og byggingu.

Þarf einnig að gefa upp áætlað leiguverð á hvern fermetra og heildarleiguverð.

„Tillögur skulu berast til Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar, esr@reykjavik.is, eigi síðar en 15. október 2024 kl. 18:00. Fyrirspurnum er beint á sama netfang.“

Tekur borgin fram að um auglýsingu sé að ræða og feli hún ekki í sér loforð um viðskipti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert