Meirihlutinn í borgarstjórn vísaði tillögu Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á vaxtarmörkun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins til borgarráðs í dag. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir tillöguna ekki vera eitthvað sem flokkurinn dragi fram í einhverju tómarúmi. Segir hún málflutning flokksins byggðan á forsendum sem sýni að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar sé hrunin.
„Þar erum við að benda að mannfjöldaspáin sem vaxtarmörkin byggja á núna, hún er tíu ára gömul, og þar er bara verulega vantalinn íbúafjöldinn sem við sjáum fram á að verði hér árið 2040.
Við í rauninni byggjum á þeim forsendum að mannfjöldinn sé vantalinn. Það sé verið að oftelja hversu margir muni búa í hverri íbúð og það sé í rauninni verið að vanáætla gríðarlega íbúðaþörfina á höfuðborgarsvæðinu til 2040,“ segir Hildur.
Segir hún tölurnar sem flokkurinn leggi til að byggt verði á séu sömu tölur sem notaðar er í samgöngusáttmálanum sem afgreiddur var úr borgarstjórn í síðustu viku.
„Þar er verið að byggja á ákveðinni mannfjöldaþróun til ársins 2040 og okkur finnst auðvitað eðlilegt að húsnæðisáætlun borgarinnar byggi á sömu mannfjöldaspá og samgönguáætlunin. Þetta verður að haldast í hendur. Við erum bara að benda á það og ef við lítum á það, þá erum við að horfa á að borgin sé að vanáætla húsnæðisþörfina.“
Meirihlutinn ákvað að í dag að vísa málinu til borgarráðs þar sem það mun fá frekari rýni en segir Hildur það hafa komið glöggt fram í máli Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar að flokkarnir séu mótfallnir því að útvíkka vaxtarmörkin og telji að hægt sé að leysa húsnæðisþörfina innan núverandi vaxtarmarka.
Segir Hildur að það sé þó einn hængur á því sem hún hafi kallað eftir svörum við í dag en ekki fengið.
„Það er risastórt gat í húsnæðisáætlun þeirra sem heitir Reykjavíkurflugvöllur. Þau gera ráð fyrir að á næstu 16 árum muni þau byggja 7.500 íbúðir þar sem í dag er Reykjavíkurflugvöllur. Í dag fengum við nýja áfangaskýrslu um Hvassahraun og hún sýnir að það er mikil vinna enn þá fram undan við að full rannsaka hvort að Hvassahraun geti verið góður kostur sem flugvallastæði þannig það er alveg ljóst að við erum aldrei að fara að byggja 7.500 íbúðir innan þessa tíma,“ segir Hildur og bætir við.
„Ég kallaði eftir svörum frá þeim um hvernig þau ætluðu sér að fylla upp í þetta gat, hvar sjá þau fyrir sér að byggja þessar 7.500 íbúðir annars staðar? En það voru engin svör við því. Þannig að við erum bara að horfa á mjög óábyrga áætlanagerð.“
Segir hún að verið sé að neita að horfast í augu við veruleikann. Vandinn sé orðinn alvarlegur og verði bara alvarlegri með tímanum.
Þá segir hún meirihlutann klofinn þegar það komi að mörgum stórum málum og leysi það oft með því að vísa málum til borgarráðs.
„Það hefur komið fyrir mjög reglulega á þessu kjörtímabili og svo fá málin engan framgang þegar þangað er komið. En við munum auðvitað fylgja því eftir og í samstarfi við félaga okkar, Sjálfstæðismenn í nágranna sveitarfélögum,“ segir oddvitinn og bætir við að það þurfi samþykki allra sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu til þess að stækka skipulagssvæði höfuðborgarsvæðisins.