Eldur kviknaði á fimmtu og efstu hæð skrifstofuhúsnæðis í Fellsmúla í Reykjavík í nótt. Tilkynning barst slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir klukkan tvö.
Allar stöðvar voru sendar á staðinn og gekk greiðlega að slökkva eldinn. Búið var að slökkva hann á fyrsta hálftímanum, að sögn Gunnlaugs Jónssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Vatnsskemmdir urðu einnig í húsnæðinu eftir að rör fór í sundur. Slökkviliðið lauk störfum á vettvangi á fimmta tímanum í nótt.
Gunnlaugur segist ekki geta sagt til um umfang tjónsins en nefnir að eldurinn hafi logað á einni hæð, auk vatnsskemmdanna. Enginn eldur komst í þak hússins og ekkert fólk var á staðnum þegar eldurinn kviknaði.