Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, hefur verið endurkjörin formaður BSRB. Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, felldi Þórarinn Eyfjörð, sitjandi 1. varaformann BSRB og formann Sameykis.
Þetta staðfestir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, í samtali við mbl.is.
Sonja var ein í framboði og fékk um 80% atkvæða en helsti slagurinn var um embætti 1. varaformanns.
Fjölnir fékk um 67% atkvæða í það embætti og felldi því Þórarinn sem sóttist eftir endurkjöri. Sameyki er stærsta félagið innan vébanda BSRB.
Magnús segir að alls hafi félögin getað úthlutað 220 þingsætum og voru 201 sem skráðu sig. Þátttaka á þinginu var því rúmlega 91%. Þátttaka í kosningunum var rúmlega 86%.
Samkvæmt heimildum mbl.is þá var talsverður hiti í mannskapnum á fundinum.