„Ég sé ekki eftir því að hafa boðið mig fram“

Jódís Skúladóttir kveðst ekki sjá eftir því að hafa boðið …
Jódís Skúladóttir kveðst ekki sjá eftir því að hafa boðið sig fram til varaformennsku VG. Ólafur Árdal

Jódís Skúladóttir þingmaður kveðst styðja nýkjörna stjórn heilshugar, en hún bauð sig fram til varaformennsku VG gegn Guðmundi Inga Guðbrandssyni sem sigraði með yfirburðum.

Hlaut Guðmundur 145 atkvæði og Jódís 27. Fjórir skiluðu inn auðu atkvæði.

„Ég sé ekki eftir því að hafa boðið mig fram. Ég held að það hafi verið mikilvægt fyrir lýðræðið í hreyfingunni að það væri val um tvo frambjóðendur,“ segir Jódís.

„Ég held líka að það hafi verið hollt fyrir öll að heyra mínar áherslur, sem byggja á lýðræðislegu samtali, hvatningu um meira samráð við grasrót og sveitarstjórnarfulltrúa.“

Samstarfið orðið þreytt

Spurð um afstöðu sína gagnvart tillögu til ályktunar um stjórnarslit VG við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn kveðst Jódís ekki hafa myndað sér endanlega afstöðu enn.

„Ég hef sagt það opinberlega að þetta er orðið ofboðslega þreytt samstarf. Ég hef hugleitt það oft á kjörtímabilinu við ýmis þung og erfið mál hvort það væri komið gott. En nú erum við hér og kjörtímabilið er að klárast þannig ég hef líka sagt að ég styðji tillögu Svandísar um að kjósa frekar að vori en hausti.“

Kveðst Jódís þó ætla að bíða og sjá hvernig lokatillagan muni líta út að vinnslu lokinni á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka