Hermenn létu Íslendinga greiða stórfé

Ljósmynd sem var tekin af hópi Íslendinga í Jerúsalem 7. …
Ljósmynd sem var tekin af hópi Íslendinga í Jerúsalem 7. október 2023. Ljósmynd/Aldís

Þórhallur Heimisson prestur skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann rifjar upp hvernig það var að vera í Ísrael ásamt hátt í 140 Íslendingum daginn sem hryðjuverkasamtökin Hamas réðust inn í Ísrael.

„Árásin hófst með eldflaugaárásum á ísraelskar borgir og flugvelli, meðal annars á Jerúsalem þar sem ég var þá staddur ásamt um 90 Íslendingum sem voru að hefja skoðunarferð um landið helga,“ skrifar Þórhallur. 

Hann var einnig með um 50 manna hóp sem hafði verið að ferðast um undanfarnar vikur og átti að fljúga frá Ben Gurion-flugvelli að morgni þess 7. október. Þannig að hann var samtals með um 140 Íslendinga í Ísrael er árásin hófst. 

Eldflaugum tók að rigna yfir flugvöllinn

Í dag er ár liðið frá fordæmalausri hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael. Þá drápu sex þúsund vígamenn nær 1.200 manns, margfalt fleiri voru særðir, hundruðum nauðgað og 250 teknir í gíslingu.

„Fyrri hópurinn var kominn á flugvöllinn er eldflaugum tók að rigna yfir hann og urðu allir að leita skjóls. En flugvél Icelandair var lent og þegar hlé varð á skothríðinni komust Íslendingarnir um borð og vélin á loft,“ skrifar hann og heldur áfram:

„Mikill var léttirinn þegar við sem vorum í Jerúsalem fréttum það, en þar dvaldi hinn nýkomni ferðahópur. Þangað var eldflaugahríð Hamas einnig bent. Sett var á útgöngubann og börn og konur send í loftvarnarbyrgi á hótelinu þar sem við dvöldum.“

Þórhallur segir hópinn þakklátann íslenskum stjórnvöldum og Icelandair fyrir að …
Þórhallur segir hópinn þakklátann íslenskum stjórnvöldum og Icelandair fyrir að bregðast hratt og vel við. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fréttu af fluginu í sprengjubyrgi

Öllu flugi á Ben Gurion-flugvöllinn var svo aflýst og eftir því sem leið á daginn og átökin hörðnuðu var útséð um frekari ferðalög um Ísrael. Enginn vissi hvernig átökin myndu þróast.

„Einhugur varð því hópnum í Jerúsalem um að snúa heim aftur sem fyrst. Fór nú í hönd löng helgi þar sem utanríkisþjónustan, Icelandair, Sigurður K. Kolbeinsson, forstjóri Kólumbusferða, sem var með í för og fleiri unnu að lausn með farþegum. Úr varð að flugvél Icelandair flaug til Amman í Jórdaníu á mánudagskvöld að sækja okkur, en við urðum að koma okkur þangað,“ skrifar hann. 

Hann segir að lagt hafi verið af stað frá Jerúsalem að morgni mánudags í rútum ásamt hópi Færeyinga og þýskra ungmenna og kennara þeirra sem flutu með. Þau höfðu frétt af fluginu hjá Íslendingum í sprengjubyrgi í Tel Avív.

Voru stoppuð af herflokkum

Ekið var gegnum Palestínu og að landamærum Jórdaníu. Þar þurfti ferðaskrifstofan að greiða dágóða summu fyrir Íslendingana. 

„Við vorum stoppuð af herflokkum nokkrum sinnum á leiðinni, en komumst loks að landamærunum. Þar urðum við að yfirgefa rúturnar og ganga yfir landamærin, því ísraelskar rútur fengu ekki að fara yfir. Á landamærunum neyddu jórdanskir hermenn okkur til að greiða stórfé til að komast yfir og lagði ferðaskrifstofan út fyrir því,“ skrifar hann.

Hann segir þó að loksins hafi hópurinn komist inn í Jórdaníu og í rútur sem biðu þeirra. Það var komið kvöld þegar hópurinn kom á flugvöllinn í Amman og út að Icelandair-vél þar sem íslensk áhöfn tók á móti þeim. 

Ljósmynd af nokkrum ferðalöngum eftir að þeir voru komnir á …
Ljósmynd af nokkrum ferðalöngum eftir að þeir voru komnir á Keflavíkurflugvöll. Ljósmynd/Aðsend

Fólk felldi tár

„Svo mikill var feginleikinn að ganga upp landganginn í vélina að margir felldu tár. Þegar allir voru komnir um borð var flogið frá Amman, yfir Egyptaland, til Rómar þar sem skipt var um áhöfn. Og svo heim til Íslands.

Nú er ár liðið og stríðið og hryllingur þess magnast með degi hverjum. En við sem þarna vorum 7. október 2023 erum þakklát íslenskum stjórnvöldum og Icelandair fyrir að bregðast hratt og vel við og koma okkur heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka