Kjarnorkuknúinn kafbátur í heimsókn

Mynd af bandaríska kafbátnum USS California úti fyrir ströndum Íslands …
Mynd af bandaríska kafbátnum USS California úti fyrir ströndum Íslands í janúar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Kjarnorkuknúinn kafbátur á vegum bandaríska hersins er nú staddur í Stakksfirði í stuttri þjónustuheimsókn í íslensku landhelginni. Um er að ræða USS Indiana.

Varðskipið Freyja fylgir kafbátnum um landhelgina og í Stakksfjörð, en samkvæmt vefnum Marine Traffic er Freyja nú úti af Garði.

Auk þjónustu við kafbátinn fara einnig fram áhafnaskipti.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu á Facebook-síðu þess kemur fram að framkvæmd heimsóknarinnar sé í nánu samstarfi við embætti ríkislögreglustjóra, Geislavarnir ríkisins og utanríkisráðuneytið.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem slíkir kafbátar koma inn í landhelgina og eru þjónustaðir hér. Í apríl á þessu ári tilkynnti utanríkisráðherra að slíkum kafbátum yrði heimilað að hafa stutta viðkomu hér við land fyrir þjónustuheimsóknir sem þessa. Er þetta í fimmta skiptið á um fimm og hálfum mánuði sem slíkir kafbátar nýta þessa heimild.

USS Indiana er orrustukafbátur af Virginia-gerð og bera slíkir kafbátar ekki kjarnavopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert