Karlmaður sem lést í umferðarslysi á Reykjanesbraut í nóvember í fyrra var undir áhrifum fíkniefna og ekki talinn hæfur til að stjórna ökutækinu. Þá notaði hann ekki belti sem orsakaði það að hann kastaðist til og varð að hluta til undir bifreiðinni þegar hún stöðvaðist eftir að hafa farið eina og hálfa veltu.
Talið er að hann hefði getað lifað slysið af hefði hann verið í belti. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa sem birt var í dag um slysið.
Maðurinn lést af völdum fjöláverka í slysinu.
Slysið átti sér stað á Reykjanesbraut til móts við Innri-Njarðvík 2. nóvember í fyrra. Maðurinn ók á Renault Kangoo-sendibifreið í vesturátt og varð slysið klukkan 8.16. Í skýrslunni er haft eftir vitni að bifreiðin hafi sveigt hratt yfir á vinstri akrein, áfram út fyrir veginn og inn á miðdeili sem er á milli gagnstæðra akbrauta.
Þar var bifreiðinni ekið á víravegrið á miðdeilinum með þeim afleiðingum að bifreiðin valt um eina og hálfa veltu. Víravegriðið kom í veg fyrir að bifreiðin færi yfir á gagnstæða akrein sem, að sögn annars vitnis, hindraði að henni væri ekið á bifreið sem var ekið úr gagnstæðri átt.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að bifreiðin hafi verið á nagladekkjum og að ekkert hafi við skoðun bent til skyndibilunar. Hins vegar er nefnt að merki hafi verið um að slag hafi verið í spindilkúlu og léleg gúmmífóðring í hjólspyrnu og að slíkt gæti haft einhver áhrif á aksturseiginleika.
Hámarkshraði á þessum stað er 90 km/klst. Samkvæmt ökumanni sem ók á eftir sendibifreiðinni og sagðist hafa verið á um 100 km/klst var bilið á milli bifreiðanna að minnka áður en slysið varð. Það bendi til þess að sendibifreiðinni hafi verið keyrt eitthvað hægar en á 100 km/klst hraða.
Þá kemur einnig fram að þurrt hafi verið og myrkur og hiti um 2°C. Götulýsing er við veginn og vindur var um 7-8 m/s.
Meginniðurstaða skýrslunnar er að ökumaðurinn hafi verið óhæfur til að stýra ökutækinu vegna áhrifa fíkniefnis. Ekki kemur þó fram hvaða fíkniefni það hafi verið eða í hvaða magni. Einnig að maðurinn hafi ekki notað öryggisbelti sem hafi orsakað að hann varð að hluta til undir bifreiðinni í veltunni.
Benda skýrsluhöfundar á að akstur undir áhrifum, hvort sem um sé að ræða áfengis, lyfja eða vímuefna, sé alvarlegt vandamál í umferðinni. Þannig hafi í níu af 32 banaslysum í umferðinni á árunum 2020 til 2023 ökumenn verið undir áhrifum ólöglegra fíkniefna og/eða áfengis. Þá eru ótalin önnur alvarleg slys í umferðinni af sömu orsökum.
Einnig benda skýrsluhöfundar á að ökumaðurinn hefði getað lifað slysið af ef hann hefði verið spenntur í öryggisbelti. „Nefndin brýnir fyrir ökumönnum og farþegum að nota ávallt öryggisbelti, hvort sem verið er að fara styttri eða lengri vegalengdir, innan eða utan þéttbýlis. Vanhöld á notkun öryggisbelta eru ein af helstu orsökum alvarlegra áverka og banaslysa í umferðinni.“